miðvikudagur, apríl 27, 2011

Afgerandi bleikt, fínlega blátt

Ljósmynd af litlum strák sem fékk að prófa bleikt naglalakk hjá mömmu sinni gerði allt vitlaust í Bandaríkjunum um daginn. Bleikur er uppáhaldslitur stráksins, að sögn mömmu hans, en bandarískum íhaldsmönnum var gróflega misboðið og sögðu þetta lýsandi dæmi um að einkenni kynjanna væru á undanhaldi. Stelpu- og strákalitirnir eru hins vegar eitthvert skýrasta dæmið um meint „einkenni kynjanna" sem eru síbreytileg, vegna þess að við búum þau til sjálf.

Því blár litur hefur í eðli sínu ekkert með stráka að gera og bleikur er alls ekkert stelpulegri en aðrir litir, ekki fyrr en við ákveðum að sjá það þannig. Í grein í tímaritinu Smithsonian nú í apríl kemur fram að það var ekki fyrr en á 20. öld sem byrjað var að gera greinarmun á ungbörnum eftir kynjum með klæðaburði. Þessu til staðfestingar fylgir með greininni mynd frá 1884 af Franklin Delano Roosevelt, síðar Bandaríkjaforseta, tveggja ára gömlum, íklæddum hvítum blúndukjól með axlasítt hár og fjaðurhatt í kjöltunni. Þessi mynd samræmist illa hugmyndum íhaldsmanna í dag um þau einkenni kynjanna sem beri að varðveita, en á þessum tíma var hið praktíska í fyrirrúmi og börn klæddust einföldum fötum sem mátti þvo við suðumark.

Smám saman fóru barnaföt að verða litríkari, en eiginleikarnir sem gefnir voru bláum lit annars vegar og bleikum hins vegar voru mjög á reiki. Það tók marga áratugi að komast að samkomulagi um hvor liturinn „hæfði" hvaða kyni betur og fram á miðja öldina var þessu gjarnan snúið við. Þannig segir í grein í tímaritinu The Infant‘s Department frá 1918 að lengi hafi verið skiptar skoðanir um þetta mál, en almennt sé þó viðurkennd regla að bleikur litur eigi betur við drengi, því hann sé skær og afgerandi, en blár hæfi stúlkum því hann sé fínlegri litur og mýkri.

Þannig gefur samfélagið litunum merkingu, sbr. að í sumum menningarheimum er það hvítur sem er litur sorgar og dauða. Í íslensku er „bleikur" í hefðbundnum skilningi alls ekki tengdur við litlar, sætar prinsessur, heldur við dauðann. Dauðinn kom ríðandi á bleikum hesti og menn voru bleikir sem náir, helbleikir eða banableikir. Samkvæmt Smithsonian hófst bleika og bláa bylgjan, sem enn er í algleymingi, fyrir alvöru á 9. áratugnum, samhliða því að mögulegt varð að kyngreina fóstur í móðurkviði.

Í dag eru það ekki bara gallarnir á fæðingardeildinni sem eru bleikir og bláir, það eru líka nestisbox, bleiur, stílabækur, snuð, reiðhjól, stígvél... hreinlega allt sem verslunarmönnum dettur í hug að markhópurinn „börn" gæti þurft eða langað í. Því þegar allt kemur til alls er það auðvitað iðnaðurinn sem stýrir þessu, það er góður bissness í því að selja foreldrum rándýrar barnavörur sem þau þurfa svo að skipta út á einu bretti þegar næsta barn fæðist af öðru kyni.

Á endanum skiptir þetta allt svo sem litlu máli, en það er ágætt að hafa í huga að börn heillast af skærum litum og ef lítill strákur laðast að einhverju bleiku þá er hann ekki að gera neitt rangt eða óeðlilegt.

Birtist sem miðopnupistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 27. apríl 2011.

Engin ummæli: