miðvikudagur, apríl 13, 2011

Fífl og aumingjar!

Hættið að tala niður íslenskt atvinnulíf, sagði Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum á mánudag. „Það er mikið hættuspil að halda þeirri röngu mynd að ungu fólki á Íslandi í dag að hér sé ekkert að gerast," sagði Ólafur. Hann beindi orðum sínum að forustumönnum íslensks atvinnulífs en fleiri mættu gjarnan taka þau til sín því niðurrifsstarfsemin og neikvæðnin sem grasserar í almenningsumræðunni ætlar hér allt lifandi að drepa. Þessi blessaða geðhvarfasjúka þjóð, sem virðist heltekin ýmist af sjálftyftun eða öfgafullri sjálfsupphafningu til skiptis, á sér ekki viðreisnar von á meðan enginn trúir því að nokkuð jákvætt geti gerst. Á meðan enginn treystir því að neinn geti raunverulega unnið af heilindum og drynjandi bölmóðurinn dynur á hverjum þeim sem vogar sér stíga fram og leggja eitthvað til.
Almenningur kvartar yfir því að stjórnmálamenn séu svo ómögulegir og fastir í pólitískum skotgröfum, en það eru líka Sigurður sjómaður og Fríða fatahönnuður sem skríða í forinni og skjóta niður allt sem hreyfist, með lyklaborðið að vopni.Um daginn sagði hagfræðingur nokkur í útvarpi að léti einhverjir útlendingar sér í alvöru detta í hug að koma hingað með peningana sína væru þeir hálfvitar. Hljómar aldeilis lokkandi. Þeir útlendingar ættu þá að falla eins og flís við rass þessa samfélags glæpamanna, fífla, aumingja og landráðamanna sem þessi þjóð virðist samsett af, miðað við hvað við köllum hvert annað. Hann tók reyndar ekki fram hvort yfirmenn Rio Tinto Alcan féllu í þennan flokk hálfvita, en þeir hafa nýverið ákveðið að fjárfesta fyrir milljarða á milljarða ofan í álveri sínu við Straumsvík.

En sé þetta rétt hjá hagfræðingnum, að hér sé ekkert að bjóða, þá hljótum við öll að vera fávitar fyrir að vera hér enn, eða hvað? Fyrir sæmilega léttlynda manneskju sem vill gjarnan horfa bjartsýn fram á veginn er staðreyndin þó sú að það eru ekki landkostir sem hafa breyst svo mjög að ekki sé lengur lífvænlegt hér. Ekki er þorskurinn horfinn og ekki höfum við framselt orkuauðlindir okkar í hendur hins illa heimsveldis Kanada.

Nei, það er fyrst og fremst hversu leiðinleg og niðurdrepandi stemningin er í landi þar sem samfélagið virðist staðráðið í því að einblína bara á svörtustu hliðarnar, þrátt fyrir að allar forsendur séu til staðar til að lifa góðu lífi. Jú það varð hér hrun, en það eru liðin tæp 3 ár síðan og eins og Lars Christiansen, hinn ágæti forstöðumaður greiningardeildar Danske Bank, sagði í gær, þá er kominn tími til að hætta að dvelja í fortíðinni og horfa fram á veginn. Ástandið er ekki fullkomið og ekki hægt að horfa fram hjá því að atvinnuleysi er 8,7%, sem er vissulega slæmt, en við megum ekki gleyma því að hin 91,3% eru með vinnu. Það fólk mætti gjarnan fá að gera eitthvað í vinnunni án þess að það væri jafnóðum rifið niður í umræðunni. una@mbl.is

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 13. apríl.

Engin ummæli: