miðvikudagur, maí 11, 2011

Gerum byltingu

Við upphaf olíukreppunnar fyrir tæpum 40 árum mörkuðu íslensk stjórnvöld þá stefnu að auka hlut hitaveitna í orkunotkun landsmanna. Fram að því gegndu innfluttir orkugjafar, olía og kol, stóru hlutverki í húshitun, en í dag eru yfir 90% íslenskra heimila hituð með jarðvarma. Jarðvarmabyltingin reyndist mikið gæfuspor fyrir þjóðina. Framtak einstaklinga og sveitarfélaga á millistríðsárunum ruddi veginn, en á endanum var það ákvörðun stjórnvalda um að jarðvarmavæða landið sem lyfti grettistakinu. Það kostaði sitt á sínum tíma að setja upp hitaveitur um allt land og leggja lagnir að hverju einasta húsi, en það borgaði sig því hitaveitan hefur síðan sparað þjóðarbúinu tugi milljarða króna á hverju ári, sem annars hefðu farið í innflutning á olíu.

Enn erum við þó ekki frjáls undan olíunni, eins og neytendur þekkja af sárri raun, því Íslendingar reka einn stærsta bílaflota heims miðað við höfðatölu og þeir bílar eru nánast allir (undantekningarnar má telja á fingrum sér) knúnir rándýrri, innfluttri og mengandi olíu. Byltingin þarf að halda áfram og nú er kominn tími á orkuskipti í samgöngum. Þar ættu að vera hæg heimatökin fyrir okkur. Íslendingar eru sennilega eina þjóðin í heiminum sem gæti hæglega rekið allan bílaflota sinn á rafmagni, án þess að byggja eina einustu virkjun. Þrátt fyrir að landkostir hér bjóði upp á fyrirmyndarstarf á þessu sviði er Ísland að dragast aftur úr öðrum löndum í samgöngubyltingunni.

Ef einhver trúir því að við gegnum forystuhlutverki í nýtingu endurnýjanlegs eldsneytis, líkt og við gerðum í innleiðingu hitaveitu, þá upplýsist hér með að það er hrein sjálfsblekking. Í samgöngumálum virðist stjórnvöld skorta þá framsýni sem var við lýði í olíukreppunni upp úr 1970, en það sama verður ekki sagt um nágrannalönd okkar. Stokkhólmur, Ósló og Kaupmannahöfn, London, París, Madrid, Amsterdam... allt eru þetta höfuðborgir sem hafa tekið formlega ákvörðun um að greiða rafbílnum leið inn í framtíðina. Því er svo fylgt eftir með raunverulegum aðgerðum eins og að fella niður innflutningstolla á rafbílum, gefa rafbílaeigendum ókeypis í bílastæði og veita fyrirtækjum styrki til að skipta bílaflota sínum í rafbíla. Í sjálfu olíuríkinu Noregi eru t.d. 3.800 rafbílar nú þegar í daglegri notkun og markmið norskra stjórnvalda er að koma minnst 200.000 rafbílum á göturnar fyrir árslok 2020.

Eftir bankahrunið er bílafloti Íslendinga orðinn einn sá elsti í Evrópu. Þörfin fyrir endurnýjun er uppsöfnuð og að því kemur að bílakaup hefjast að nýju. Þá væri hagstætt bæði fyrir þjóðarbúið og neytendur ef rafbílar væru orðnir raunhæfur kostur, en til þess að svo geti orðið þarf að sýna framsýni, byggja upp kerfi líkt og gert var fyrir hitaveituna fyrir 35 árum og taka af skarið um orkubyltingu. Frá 1970-2009 spöruðum við 1.330 milljarða með því að nota jarðvarma í stað olíu í húshitun. Veitir okkur nokkuð af sama sparnaði í bílaflotanum? 

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 11. maí 2011.

Engin ummæli: