Norrön samvinne?
Í haust sat ég sex vikna námskeið fyrir blaðamenn á vegum Norrænu blaðamannamiðstöðvarinnar. Námskeiðið er árlegt og er ætlað að efla norrænt samstarf, eftir hinni fallegu hugmyndafræði um frændsemi og vináttu Norðurlandabúa. Vinnumálið var „blandinavíska“ sem meiningin er að allir Norðurlandabúar geti sameinast um. Enska virðist nefnilega vera eitur í beinum Norrænu ráðherranefndarinnar, sem styrkir samstarfsverkefni á borð við þetta, Norðurlandaráð æskunnar o.fl. í sama dúr.
Sú hótun virðist vera undirliggjandi að nái enskan yfirtökunum þá verði einfaldlega skrúfað fyrir fjárveitinguna. Í þessu felst ákveðinn hroki. Fyrir það fyrsta má nefna að í norskum sænskum og dönskum grunnskólum fer engin kennsla fram í öðrum norrænum málum en móðurmálinu. Samt ætlast þessar þjóðir til þess að allir geti skilið þá. Blandinavískan svonefnda felst nefnilega fyrst og fremst í því að Norðmenn, Svíar og Danir tala sín eigin skandinavísku mál (stundum hægt ef þeir muna eftir því) en jaðarþjóðirnar og vandræðagemsarnir frá Íslandi og Finnlandi, Færeyjum og Grænlandi rembast við að hlusta á og skilja þrjú erlend tungumál í einu og svara svo á einhverju bastarðsmáli. Sjálf var ég fljót að reka mig á veggi, þrátt fyrir að vera áhugamanneskja um tungumál og mjög veik fyrir öllu sem heitir norræn frændsemi.
Ég hef aldrei farið meira en helgarferðir til Skandinavíu og með grunnskóladönskuna eina að vopni kom fljótt í ljós að ég var félagslega heft. Ég átti svo sem ekki í vandræðum með að syngja hástöfum „Helan går, sjung hopp faderallan lallan lej“ fyrir skál eða babla eitthvað um daginn og veginn en þegar kom að því að rökræða raunveruleg málefni, og þau voru mörg tekin fyrir á námskeiðinu, stóð ég strax höllum fæti gagnvart þeim sem fengu að tala sitt móðurmál. Þó stóð ég betur að vígi en Finnarnir, því ég skildi þó a.m.k. mestallt, en þeir sátu sumir í gegnum heilu dagana af fyrirlestrum á dönsku og voru litlu nær. Síðar snerist dæmið við, þegar haldnir voru fyrirlestrar á Finnlandssænsku. Þá voru Danirnir eitt spurningarmerki.
Hugmyndin um sameiginlegt tungumál Norðurlanda er sannarlega falleg. Með góðum vilja og þolinmæði gengur hún stundum upp. Öðrum stundum virðist blandinavískan þó gera meira ógagn og þegar svo er held ég að þvermóðskan gegn enskunni hái norrænu samstarfi frekar en að stuðla að framþróun þess. Að þessu sögðu vil ég taka fram að ég styð kennslu Norðurlandamála í skólum því það er nauðsynlegt að Íslendingar eigi sem flesta möguleika til að sækja þekkingu og félagstengsl utan landsteinanna. Norðurlöndin eru góður vettvangur til þess enda eiga þau margt sameiginlegt, annað en tungumálið.
Ég tel ekki að grundvöllur norrænnar samvinnu og vináttu hrynji sjálfkrafa þótt við hættum að tala saman á norrænu þykjustumáli. Þeir sem það geta ættu endilega að eiga samskipti á Norðurlandamálum (sjálf mun ég halda áfram að reyna!). En ég er þeirrar skoðunar að við eigum fyrst og fremst að leitast við að tala þannig að við skiljum hvert annað sem best. Ef enskan færir okkur þann skilning þá er engin skömm að því.
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 19. október 2011. Birtist hér með örlitlum viðbótum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli