Einfaldara líf
Árið 2006 kostaði einn Bandaríkjadalur um það bil 67 íslenskar krónur. Á þeim tíma bjó ég á bandarískum háskóla-campus steinsnar frá verslunargímaldinu/paradísinni Mall of America. Í ofanálag er málum einnig svo háttað að þar í Minnesota er enginn virðisaukaskattur á fatnaði. Að öllu þessu samanlögðu sá ég mér því ekki annað fært en að fara í vikulegan verslunarleiðangur og lagðist satt að segja í nokkurra mánaða neyslubrjálæði.
Það eina sem dró úr verslunargleðinni, fyrir utan hvað það var þreytandi að drösla öllum pokunum heim með lest, var herbergisfélagi minn. Hún var nefnilega bandarískur vinstrimaður og í því fólst meðal annars að hún var á móti ýmsu sem ég þekkti að góðu einu, eins og kjötáti, loðfeldum og almennri neysluhyggju. Sæluvíma mín yfir hagstæðum fatakaupum dvínaði þegar ég mætti vonsviknu augnráði hennar í herbergisdyrunum svo að þegar ég kom heim úr vel heppnuðum verslunarleiðangri skaust ég inn í herbergið og henti innkaupapokunum eldsnöggt inn í skáp, áður en hún fengi tóm til að taka af sér heyrnartólin og átta sig á verksummerkjunum.
Við höldum ekki sambandi í dag en það hefur hvarflað að mér að senda henni póst til að gleðja hana með þeim fregnum að ég sé farin að þokast svolítið nær andúð hennar á almennri neysluhyggju. Vissulega nýt ég þess ennþá að kaupa fallega flík, en ég hef líka fundið fyrir því eftir að hafa haldið eigið heimili um nokkurra ára skeið að það er með hreinum ólíkindum hvað jafnvel hófsamasta fólk safnar í kringum sig miklu drasli. Hlutir. Hlutir eru alls staðar og fylla allar hirslur. Hlutir flæða út úr kompum, háaloftum, kjöllurum og bílskúrum hjá öllum sem ég þekki og sjálfri mér líka.
Stundum finnst mér eins og að því fleiri hluti sem ég eignist því meira skerðist frelsi mitt í samræmi. Það er nefnilega heftandi að þurfa að hafa áhyggjur af hlutum. Hafa áhyggjur af því hvort þeim verði stolið, hvort þeir skemmist eða falli í verði og hvort hægt verði að selja þá eða koma þeim fyrir ef maður þarf að flytja. Ég hef þó fundið ró í þeirri vitneskju að flestir mínir hlutir eru ekki mikils virði og því ekki mikil eftirsjá að þeim.
Í sumar fór ég með bílfarm af hlutum í Kolaportið og seldi þá fyrir slikk. Það var mikill léttir að losna á einu bretti við mörg kíló af hlutum. Næsta skref var tekið nú á haustmánuðum þegar ég ákvað að losa mig við bílinn. Það hafði hvarflað að mér áður í þessu bensínbrjálæði en fyrirfram hélt ég að það yrði erfið ákvörðun sem myndi kosta mikla yfirlegu. Þegar til kom varð það hinsvegar skyndiákvörðun sem tekin var upp úr þurru. Burt með þennan bíl. Í stað þess að upplifa helsi eins og ég hafði óttast upplifi ég frelsi. Ég þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af bensínverðinu eða viðgerð eða að bílnum verði stolið. Einfaldara líf. Herbergisfélagi minn fyrrverandi yrði stolt af mér. Hún þarf ekkert að vita hvað mér finnst ennþá gott að borða blóðuga steik og klæða mig í loðfeld. Birtist fyrst sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 2. nóvember 2011
Engin ummæli:
Skrifa ummæli