Ímyndaðar óvættir
Jólakötturinn er óvættur sem áður fyrr vakti hroll á hverjum bæ fyrir jólin, samkvæmt þjóðsögum Jóns Árnasonar. Forfeður okkar gátu ekki notið jólanna með öllu áhyggjulausir vitandi af jólakettinum á ferð nema þeir hefðu fengið nýja flík til að halda honum í skefjum.Í dag missa fæstir svefn yfir jólakettinum en þegar gamlar óvættir hverfa spretta aðrar fram og nútímaþjóðsögur hafa tekið við til að tryggja að við getum samt ekki notið jólanna með öllu áhyggjulaus. Óvættirnar sem nú eiga að tryggja að við höldum okkur á mottunni og hegðum okkur vel eru ekki Grýla eða Leppalúði, jólakötturinn eða jólasveinarnir, nei, þeir eru jafnvel enn verri við að eiga, nefnilega hin ógnvænlegu jólakíló. Jólin eru ekki einu sinni byrjuð þegar sumir eru farnir að hafa áhyggjur af því hvernig þeir muni ná jólakílóunum af sér að þeim loknum, verði þeir svo óheppnir að lenda í þeim.
Megrunariðnaðurinn hefur hræðsluáróðurinn um svipað leyti og jólaskrautið birtist í Ikea; hvernig á að koma sér í kjólinn fyrir jólin, forðast freistingarnar, hlaupa af sér mörinn eftir áramót. Þessi óvættur er þó ekki árstíðabundin, á aðventunni heitir hún jólakílóin, en á útmánuðum heitir hún sundfataform.
Aukakílóahræðslan á sér farveg allt árið um kring og þjóðsagan um hvað fita er ofboðslega vond lifir góðu lífi. Afleiðingin er sú að fjöldi fólks er í stöðugu tilgangslausu stríði við líkama sinn sem veldur því mikilli vansæld. Í stað þess að beina sjónum að heilsu, hamingju og hreysti fer umræðan um heilbrigðan lífsstíl öll fram á forsendum kílóa og fitu, þrátt fyrir að það sé ekkert sem segir að þeir sem eru lausir við öll „auka“kíló séu heilbrigðir.
Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur hefur bent á að grannt fólk lifi oft í sjálfsblekkingu um eigin heilsu vegna þess að samfélagið er svo gegnsýrt ofurtrúnni á hinn granna líkama. Sigrún hefur sagt megrunarumræðunni stríð á hendur, en rödd hennar má sín lítils þegar flestir fjölmiðlar taka af kappi þátt í þeirri menningu að mæla ágæti fólks út frá kílóatölu og fituprósentu.
Sú hugmynd að grannt sé gott og feitt slæmt er svo allsráðandi að grönnum einstaklingum er gagnrýnilaust hampað sem góðum fyrirmyndum og gildir þá einu hvaða innri mann þeir hafa að geyma eða þótt þeir lifi í reynd óheilbrigðum lífsstíl. Að sama skapi er gengið út frá því sem gefnu að þeir sem hafa annan líkamsvöxt en tággrannan hljóti að vera óánægðir með sjálfa sig, vegna þess að öll eigum við stöðugt að keppa að því að vera nógu grönn til að fullkomna líf okkar.
Ég neita að láta ótta við þjóðsagnakenndar óvættir varpa skugga á jólin. Ég ætla að taka hraustlega til matar míns, enda þarf að byggja upp forða til að þreyja janúarmyrkrið. Ég ætla að gæða mér án nokkurs samviskubits á öllum þeim kræsingum sem þessi dásamlegi árstími hefur upp á að bjóða og njóta þess að finna hvernig ég fylli út í gamla jólakjólinn minn.
Birtist í Morgunblaðinu sem pistill miðvikudaginn 30. nóvember
Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur hefur bent á að grannt fólk lifi oft í sjálfsblekkingu um eigin heilsu vegna þess að samfélagið er svo gegnsýrt ofurtrúnni á hinn granna líkama. Sigrún hefur sagt megrunarumræðunni stríð á hendur, en rödd hennar má sín lítils þegar flestir fjölmiðlar taka af kappi þátt í þeirri menningu að mæla ágæti fólks út frá kílóatölu og fituprósentu.
Sú hugmynd að grannt sé gott og feitt slæmt er svo allsráðandi að grönnum einstaklingum er gagnrýnilaust hampað sem góðum fyrirmyndum og gildir þá einu hvaða innri mann þeir hafa að geyma eða þótt þeir lifi í reynd óheilbrigðum lífsstíl. Að sama skapi er gengið út frá því sem gefnu að þeir sem hafa annan líkamsvöxt en tággrannan hljóti að vera óánægðir með sjálfa sig, vegna þess að öll eigum við stöðugt að keppa að því að vera nógu grönn til að fullkomna líf okkar.
Ég neita að láta ótta við þjóðsagnakenndar óvættir varpa skugga á jólin. Ég ætla að taka hraustlega til matar míns, enda þarf að byggja upp forða til að þreyja janúarmyrkrið. Ég ætla að gæða mér án nokkurs samviskubits á öllum þeim kræsingum sem þessi dásamlegi árstími hefur upp á að bjóða og njóta þess að finna hvernig ég fylli út í gamla jólakjólinn minn.
Birtist í Morgunblaðinu sem pistill miðvikudaginn 30. nóvember
Engin ummæli:
Skrifa ummæli