Föstudagspistill um ferðalög
Ég elska ferðalög. Það verður bara að hafa það þótt ég hljómi eins og andlaus fegurðardrottning, því þannig er það, ferðalög eru meðal minna helstu áhugamála. (Reyndar væri ég alveg til í frið á jörð líka ef út í það er farið. Þá gæti ég líka ferðast til fleiri staða án þess að hafa áhyggjur af öryggi mínu.)
Ég elska ferðalög. Það verður bara að hafa það þótt ég hljómi eins og andlaus fegurðardrottning, því þannig er það, ferðalög eru meðal minna helstu áhugamála. (Reyndar væri ég alveg til í frið á jörð líka ef út í það er farið. Þá gæti ég líka ferðast til fleiri staða án þess að hafa áhyggjur af öryggi mínu.)
Það sem ég elska við ferðalög, fyrir utan þá einföldu staðreynd að þau svala þorstanum eftir að sjá og heyra eitthvað nýtt, er spennufiðringurinn sem fylgir því. Það skiptir engu máli hvort ferðin liggur um fáfarnar slóðir á fjöllum eða til vinsælustu áfangastaða heims í stórum menningarborgum, svo lengi sem það eru framandi slóðir fyrir mér líður mér eins og landkönnuði að uppgötva eitthvað nýtt.
Ég elska frelsistilfinninguna sem heltekur mig yfirleitt um leið og flugvélin tekur á loft og ég sé Íslandsstrendur hverfa mér. Það er frelsandi að vera á ókunnugum stað og vera ekki bundinn neinni dagskrá nema þeirri sem ég set mér sjálf. Ferðalög frelsa mann líka undan rútínunni og verða þannig til þess að maður hugsar öðru vísi og um aðra hluti en í hversdagslífinu.
Ég elska áskorunina. Það reynir stundum á að vera á framandi slóðum þar sem einföldustu hlutir, eins og að finna mat eða klósett eða spyrja átta, verða áskorun. Þá ríður á að geta haft húmor fyrir aðstæðum og haldið jafnaðargeði, hvort tveggja eiginleikar sem hollt er að þjálfa.
Ég elska hvernig ferðalög dýpka skilning manns og tengja mann við fólk í fjarlægum heimshlutum. Maður sér með eigin augum hvað margt er líkt en líka margt ólíkt. Eftir að hafa ferðast til lands vekja fréttir þaðan meiri athygli mína en áður, ég læt mig það frekar varða hvernig almenningi farnast þar sem ég hef sjálf gengið um göturnar.
Ég elska líka að hitta nýtt fólk á ferðalögum, jafnvel þótt það séu yfirleitt stutt kynni. Maður fyllist trú á mannkyninu við að finna að víðast hvar sem leiðir manns liggja er að finna gott, hjálpsamt og skemmtilegt fólk. Svo einfalt er það.
Ég elska að ná áttum. Fyrstu augnablikin í nýju landi þar sem tungumálið er óskiljanlegt, verðskynjunin brengluð og staðhættir ókunnir geta verið hálfgert adrenalínkikk. Þá tekur við verkefnið að átta sig á umhverfinu, finna út hvernig maður kemst frá A til B, finna mat, svefnstað, hætta að líta út eins og áttavillt og auðveld bráð. Þegar þetta tekst og maður nær stjórn á aðstæðum líður manni eins og ekkert í heiminum geti stöðvað mann lengur. Það er ótrúlegt hversu fljótt framandi staður verður kunnuglegur.
Ég elska hvernig einmitt sú staðreynd sýnir manni að þótt heima sé best þá gæti „heima“ verið nánast hvar sem er...
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu föstudaginn 27. janúar 2012.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli