laugardagur, febrúar 19, 2005

G-strengur

Síðan g-strengir urðu almennir meðal kvenna hafa reglulega heyrst fullyrðingar um óþægindin sem fylgja þessum klæðnaði. Nú síðast í gær, þegar ég sat í umræðutíma í heimspekilegum forspjallsvísindum, heyrði ég g-strengi nefnda í umræðu um kynjamisrétti, og það var ekki í fyrsta skipti sem haldið er fram tengslum þar á milli. Sjálfsagt er sitthvað til í því að g-strengir séu hluti af þessari stanslausu hlutgervingu kvenlíkamans sem maður er bombardaður með allan daginn; en ég er mótfallin því að g-strengir séu gerðir að sérstöku baráttumáli í jafnréttisumræðunni. Auðvitað er fáránlegt að framleiddir séu strengir sem ætlaðir eru litlum stelpum sem varla eru kynþroska. Mér finnst sárt að sjá krakka með sáralitla kynvitund finna sig knúin til að leika kynverur, á kolröngum forsendum. Á hinn bóginn þykir mér ekkert sjálfsagðara en að fullorðið fólk sé meðvitað um líkama sinn og geri sitt besta til að líta vel út. Þetta á bæði við um konur og karla. Það er ekkert að því að vera kynvera, og jafnframt ekkert sem segir að konur sem reyni að vera kynþokkafullar hafi ekki ýmislegt annað fram að færa líka. Þess vegna fer í taugarnar á mér þegar g-strengir eru útmálaðir sem hlekkir til tákns um þrældóm konunnar. Flestar konur sem kjósa að ganga í g-strengjum gera það sjálfviljugar; ekki vegna skorts á sjálfstæðum vilja. Þetta er nefnilega bara alveg ágætis nærfatnaður og að margra mati þægilegri en hefðbundna sniðið, sem er oft gjarnara á að skerast í nárann. Mér þykir það vera til marks um þægindi nærfata ef ég gleymi í hvaða nærbuxum ég er þegar líður á daginn, og á það við um flesta mína g-strengi.

En að allt...

...öðru. Opnuð hefur verið með pompi og prakt, freyðivíni, borða og ræðuhöldum, ný vefsíða. Sú ber heitið Djöflaeyjan og er rekin af 4 mætum mönnum; þeim Önundi Ragnarssyni, Magnúsi Davíð Norðdahl, Árna Helgasyni og Sverri Inga Gunnarssyni, auk þess sem Konráð Jónsson hafði hönd í bagga. Þar eru mætir menn á ferð og því varla við öðru að búast en að síðan sé frambærilega og óhætt að mælast til þess að áhugasamir netverjar innleiði Djöflaeyjuna í sinn daglega netrúnt.

Engin ummæli: