laugardagur, mars 26, 2005

Kross

Ég hef enduruppgötvað gamla dægradvöl sem ég skemmti mér löngum yfir sem krakki, þ.e. krossgátur á síðum dagblaðanna. Krossgátur voru mér mjög hugleiknar þegar ég var yngri og leysti ég allar sem ég komst yfir, en svo dalaði áhuginn. Kannski var það vegna þess að til lengdar eiga þær til að verða dálítið keimlíkar og þótt hver gáta hafi einhvern nýjan flöt eru sömu minnin síendurtekin í þeim öllum. Metnaðarfullir krossgátuleysendur þurfa að hafa þessi minni á hreinu því þau skjóta sífellt upp kollinum, enda þess eðlis að þau henta vel sem uppfylling í krossgátur. Þetta eru samheiti svo sem:

skel = aða
guð = Ra
óþekktur = nn
ryk = ar

og fleiri. Þessa krossgátulykla þekkti ég vel sem krakki og þótti alltaf jafngaman að besserwissera þegar aðrir stóðu á gati. Sem gerðist að vísu sjaldan því krossgátur virðast ekki vera svo vinsælt hobbí hjá ungu fólki. Ég náði samt aldrei sömu hæðum og mamma í krossgötunördisma. Hún hefur mikla skoðun á góðum og slæmum krossgátum og lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Samkvæmt henni var krossgátusmiður Vikunnar afgerandi bestur, en eftir að hann hætti (Einhvern tíma á 10.áratugnum) þá sneri mamma baki við þessu áhugamáli. Allt þar til hún komst einhverju sinni yfir heilan lager af gömlum vikublöðum og ljósritaði krossgátusíðurnar úr þeim öllum. Ég vona að sjónin dali ekki um of þegar ég eldist, því krossgátur verða líklega að vera mín afþreying á elliheimilinu, þar sem ég kann ekki að prjóna. Nema náttúrulega þessi bloggsíða muni fylgja mér í dauðann.

Engin ummæli: