miðvikudagur, júní 08, 2011

Þú skalt ekki nauðga

Ég held við séum að fara eins og köttur í kringum heitan graut. Mér hefur verið sagt að það megi ekki segja þetta en samt sem áður ættu konur að forðast að klæða sig eins og druslur til þess að koma í veg fyrir að ráðist sé á þær." Þessi orð lét kanadískur lögreglumaður falla í fyrirlestri um öryggismál á háskólalóð hinn 24. janúar. Ummæli hans eru ekki einsdæmi heldur bergmál af þeim endalausu, misvísandi fyrirmælum sem alla tíð hefur verið beint til kvenna um hvernig þær eiga að haga sér, hvar þær eiga að vera og hvernig þær eiga að klæða sig, til að koma í veg fyrir nauðgun.

Lögreglumaðurinn, eins og flestir þeir sem stigið hafa í sama predikunarstól, lét alveg hjá líða að nefna mjög einfalda aðferð sem karlar geta beitt til að koma í veg fyrir nauðgun: Að nauðga ekki. Í kjölfar ummælanna var efnt til fjölmennrar mótmælagöngu undir heitinu SlutWalk sem hefur verið endurtekin um allan heim. Og nú virðist slík ganga í bígerð í Reykjavík. Það er frábært að barátta gegn kynferðisofbeldi verði sífellt öflugri, en ég verð að viðurkenna að ég er hugsi yfir þessari útfærslu. Meðal yfirlýstra markmiða mótmælanna er að „endurheimta" orðið „slut". Í íslensku hefur orðið drusla verið notað með sambærilegum hætti, um konur sem þykja hafa sofið hjá „of mörgum" eða gefið til kynna með klæðaburði að þær séu viljugar til að sofa hjá „of mörgum".

Ekki get ég séð að í orðinu drusla séu fólgin mikil verðmæti til að endurheimta, enda hefur það alla tíð haft neikvæða vísan, líka áður en byrjað var að tengja það kynhegðun kvenna. Ef eitthvert orð er til sem konur þyrftu að „endurheimta" þá er það orðið „femínisti", sem virðist í hugum margra vera eitt það mesta skammaryrði sem hugsast getur og má vart á milli sjá hvort þykir verra, að vera drusla eða að vera femínisti. Skilaboð þessara mótmæla virðast vera margslungin og ég er ekki viss um að ég geti kvittað undir þau öll en þannig er reyndar femínisminn.

Femínismi er ekki miðstýrð hreyfing og því tekur hann á sig ýmsar myndir. En helsta hreyfiafl hans er þörfin fyrir að brjóta stöðugt upp þá flokka sem samfélagið setur konur í. Fyrst var það hið niðurnjörfaða hlutverk húsmóðurinnar sem þurfti að brjótast undan og sýna að konur geta verið eins og karlar (tekið þátt í stjórnmálum, klæðst buxum). Í næstu sveiflu femínismans var kvenleikinn endurheimtur og sýnt fram á að kona þarf ekki að vera eins og karl til að njóta virðingar. Fyrst þurftu konur að berjast fyrir því að fá að vera kynverur. Nú þurfa konur að berjast fyrir því að ekki sé litið á þær sem eintómar kynlífsdúkkur.

Druslugangan er enn eitt dæmið um að femínismi er í stöðugri gerjun. Sama hver útfærslan er virðist þó vera einhugur um að uppræta þá menningu sem gerir þolandann ábyrgan fyrir kynferðisofbeldi. Skilaboð samfélagsins hafa verið: „Ekki láta nauðga þér" en ættu að vera: „Ekki nauðga."


Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 8. júní 2011.

2 ummæli:

Ásta Elínardóttir sagði...

Reyndar skildi ég þann hluta er snýr að því að endurheimta orðið drusla væri í raun ætlað að gjaldfella orðið drusla. Þar sem það er ekki til neitt sem heitir að sofa hjá of mörgum eða að klæða sig eins og kona vilji sofa hjá mörgum.

Drusla er bara skammaryrði sem gengur ekki upp og er einmitt mjög oft bendlað við þolendur kynferðisofbeldis.

Annars bara kærar þakkir fyrir mjög góða grein :)

Björn N. sagði...

Þótt að einhver segi að kona eigi að láta ekki nauðga sér þýðir ekki að þeir segi að það sé konuni að kenna... heldur að konur þurfa að passa sig þar sem það eru fávitar þarna úti sem nauðga þótt að það megi ekki.
Sumir eru bara skemmdir... það á ekki að koma þeim í stöðu sem þeir geta misnotað... Ég er ekki að segja að það sé konuni að kenna að henni hafi verið nauðgað heldur að það eru skref sem hún getur tekið til að minnka líkurnar á að verða target nauðgara... einsog það er hægt að taka skref til að minnka líkurnar á að verða fyrir vasaþjófnað í útlöndum... Konur geta t.d. notfært sér styrk í fjölda með að halda hópin.
Það er fátt verra en nauðgun... En það er ekki hægt að útrýma henni einsog er... hver veit með framtíðina. En einsog er þá verða konur bara að passa sig og vera með opin augun og passa hverja aðra... og þeir karlmenn sem kunna að biðja um leyfi.. passiði uppá þær konur sem eru í kringum ykkur hvort sem þig þekkið þær eða ekki...