Nóg af hinu góða
Það er eflaust að bera í bakkafullan lækinn að vekja hér máls á farsanum sem aðdragandi komandi forsetakosninga hefur verið. En þar sem hinum þaulsætna forseta Ólafi Ragnari Grímssyni virðist mjög í mun að tryggja þeirri túlkun vægi í sögubókum framtíðar að hann hafi alls ekkert viljað vera forseti í fimmta sinn, heldur bara gert það af greiðasemi við þjóðina, þá ætla ég að nýta þetta litla pláss hér til að tryggja að heimild verði líka til fyrir því að flest okkar voru alls ekkert að biðja hann um það. Og hver veit, komi sú afstaða nógu skýrt fram hjá nógu mörgum mun Ólafur kannski bregðast við með því að hætta við að hætta við að hætta?
Í fjórar vikur hékk áskorun á Ólaf að halda áfram uppi á netinu og landsmenn hvattir til að skrifa undir. Afraksturinn varð um 31 þúsund undirskriftir. Það gera um 13% þeirra sem eru á kjörskrá. Um 208 þúsund Íslendingar, nærri 87% atkvæðisbærra manna í landinu, ákváðu fyrir sitt leyti að ekki væri ástæða til að skora á Ólaf Ragnar að sitja áfram. Ég ætla ekki að fara svo frjálslega með tölurnar að túlka það sem svo að 87% kjósenda séu á móti því að Ólafur Ragnar sitji áfram. Hinsvegar virðist sannfæring þeirra ekki jafnsterk og Ólafs sjálfs um að Íslandi stafi hætta af því að missa hann úr embætti.
Þessum 208 þúsund Íslendingum gafst nægur tími og gott tóm til verksins, undirskriftasöfnunin stóð í 4 vikur og fór fram á netinu, en 93% íslenska heimila eru með nettengingu og 93% landsmanna á aldrinum 16-74 ára nota netið á hverjum einasta degi. Samt sá yfirgnæfandi meirihluti þeirra ekki tilefni eða ástæðu til að fara inn á vefsíðuna og kvitta, aðgerð sem tekur varla meira en eina mínútu. Þeir sem stóðu að undirskriftunum, gamlir samherjar Ólafs, ætluðu sér upphaflega að ná fleiri undirskriftum, en tókst ekki, og bendir það kannski til þess að hann eigi ekki mikið meiri stuðning inni.
Ólafur Ragnar hefur verið sagður málsvari lýðræðisins í forsetatíð sinni. Á þeim 16 árum hafa kjósendur þó ekki fengið tækifæri til að nýta lýðræðislegan rétt sinn nema einu sinni þegar kemur að forsetakjöri. Það er að vísu ekki Ólafi Ragnari sjálfum að kenna, en honum virðist ekkert leiðast það heldur. Árin 2000 og 2008 var Ólafur einn í framboði og sjálfkjörinn. Þegar við kusum síðast, fyrir 8 árum, var kjörsókn óvenjudræm og af þeim sem mættu á kjörstað skiluðu 20,6% auðu atkvæði. Margir voru þá ósáttir við Ólaf Ragnar eftir að hann ákvað fyrstur forseta að beita málskotsréttinum samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar.
Sjálf greiddi ég honum atkvæði mitt þann 26. júní þetta ár, því þótt hann væri afar umdeildur fannst mér Ólafur hafa helstu kosti til að bera sem forseti þyrfti. En nú er komið nóg. Það er prinsipp-mál að hjá lýðræðisríki gegni einn og sami maðurinn ekki einu valdamesta embættinu í 20 ár. Ólafur Ragnar er ekki sá eini sem getur verið forseti og það munu ekki verða endalok íslensku þjóðarinnar að annar taki við Bessastöðum.
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 7. mars 2012
Engin ummæli:
Skrifa ummæli