miðvikudagur, mars 21, 2012

500 kílómetra fyrir 600 krónur

Ríkisstjórnin hefur nú samþykkt lækkun virðisaukaskatts á rafbíla og tvinnbíla og er vonandi að frumvarp þess efnis, sem hefur raunar verið í pípunum í meira en ár, verði afgreitt af þinginu sem fyrst. Þetta eru góð tíðindi fyrir okkur öll sem fellum tár þegar við fyllum á bensínahákana okkar og sjáum peningana þannig fuðra upp.

Bílaframleiðendur um allan heim eru farnir að framleiða rafbíla af öllum stærðum og gerðum, fjöldaframleiðsla er handan við hornið svo með aðgerðum eins og þeim sem stjórnvöld ætla nú að ráðast í ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að ómþýðir rafbílar byrji brátt að líða mengunarlaust um götur Reykjavíkur. Fram kom í Mbl.is í gær að tvinnbíllinn Chevrolet Volt muni, sem dæmi, lækka í verði um eina milljón króna verði virðisaukaskatturinn felldur niður. Það munar um minna. Sambærilegar aðgerðir hafa gefið góða raun annars staðar, t.d. í Noregi þar sem rafbílum hefur fjölgað jafnt og þétt á götunum.

Kostir þess að keyra bílaflotann okkar, sem er einn sá stærsti í heiminum miðað við höfðatölu, á endurnýjanlegri, innlendri orku eru auðvitað óteljandi. Umhverfissjónarmið skipta þar miklu máli en gagnvart hinum almenna neytanda, að ónefndum gjaldeyrisforða ríkisins, vegur án efa þyngst sá gríðarlegi sparnaður sem felst í því að vera ekki háð innfluttu jarðefnaeldsneyti, á því verði sem olíutunnan býðst í dag. Undanfarin ár hefur miklu verið varið í rannsóknir og þróun á nýjum orkugjöfum fyrir samgöngur enda fyrirséð að hratt gengur á olíubirgðir heimsins.

En hér á landi tekur því satt að segja varla að ræða aðra orkugjafa en rafmagnið þegar samgöngur eru annars vegar. Yfirburðir rafmagnsins eru miklir, ekki síst hér þar sem framleiðsla rafmagns er græn og væn eins og við erum sífellt að státa okkur af og framboðið nóg til að knýja allan bílaflotann. Vökvar og gas af ýmsum tegundum hafa verið nefnd til sögunnar og eru ágæt til síns brúks en geta varla talist heildstæð lausn fyrir orkuskipti í samgöngum líkt og rafmagnið.

Augljósasti ókosturinn er að gas og olíur þyrfti alltaf að flytja í stórum tankbílum milli landshluta með tilkostnaði, sliti á vegum og slysahættu. Rafmagnið þarf hins vegar ekki að flytja. Það er nú þegar inni á hverju einasta heimili og vinnustað, snarkandi í þéttu neti sem búið er að leggja um allt landið. Það þarf ekki annað en að stinga bílnum í samband á meðan við sofum eða vinnum.

Vonandi verða þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til þess að hreyfa við markaðnum og færa okkur rafbíla sem raunhæfan kost, því allar forsendur eru til staðar og ég efast ekki um að fleiri en ég myndu vilja getað farið inn í sumarfríið eins og facebookvinur minn sem skrifaði um daginn, keyrandi um á Benz ML350-rafjeppa:

„Búinn að keyra yfir 500 km og nota rafmagn fyrir 600 krónur. Aldrei aftur bensínstöð.“


Birtist fyrst sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 21. mars 2012.

Engin ummæli: