Femínistar
Ég hef verið femínisti síðan áður en ég vissi að þetta hugtak væri til. Femínismi var sennilega sá vettvangur þar sem ég fann fyrst hvöt til að leggja mitt af mörkum í umræðunni til að fá hlutunum breytt. Feminísk umræða hefur gengið í bylgjum en fer mjög hátt um þessar mundir. Sem femínisti ætti ég sennilega að fagna þessu en ósjálfráð viðbrögð mín hafa frekar verið þau að draga mig í hlé.
Ég á erfitt með að finna mig í umræðunni á þeim stað sem hún er núna. Hún er hatrömm á báða bóga og stundum hatursfull. Oftar en ekki fer hún fram á vettvangi fjölmiðla sem virðast beinlínis þrífast á því að etja fólki saman í rifrildi. Upp að vissu marki er ég þakklát þeim femínistum sem nenna að „taka slaginn“ en á hinn bóginn virðist mér sem sá slagur sé líka oft tilkominn vegna þess að ákveðið var að velja baráttunni farveg sem borin von var að endaði öðruvísi en stál í stál.
Þar liggur hundurinn sennilega grafinn. „You have to pick your battles,“ segja þeir á enskunni og þeir femínistar sem duglegastir eru að láta í sér heyra í dag velja ítrekað að heyja orrustur sem ég hef engan drifkraft til taka þátt í og stundum með vopnum sem ég vil ekki beita.
Mín upplifun er sú að afleiðingin af þessu verði ómálefnaleg umræða sem fer í hringi þar til hún festist í rembihnút eða springur í loft upp. Kannski er einhverjum markmiðum náð með þessu en mér tekst þá ekki að sjá hver þau eru. Mér fallast bara hendur. Öfgafemínisma kalla sumir þetta. Ég veit ekki með það. Mér finnst viðbrögð andstæðinga femínista yfirleitt vera mun öfgafyllri en hinar meintu öfgar sjálfar.
En ég veit líka að ég er ekki sammála þeim sem segja að það sé ekkert til sem heiti öfgafullur femínismi. Jafnréttisbaráttan getur farið út í öfgar eins og allt annað og myndi gera það ef sumir fengju að ráða, t.d. sú sem sagðist ekki geta hugsað sér að styrkja starfsemi munaðarleysingjahælis vegna þess að hlutfall drengja þar sé hærra en stúlkna.
Hver er svo niðurstaðan af þessu? Þótt mér finnist ég ekki eiga samleið með þeim róttæku femínistum sem hafa verið ráðandi í umræðunni undanfarið finnst mér allt í lagi að til séu einhverjir sem eru tilbúnir að ganga lengra heldur en ég er sjálf. En ég á erfitt með að sjá að aðferðafræðin sé að skila gagni. Það væri auðvelt að segja róttæka vinstrimenn hafa stolið femínismanum, þeir hafa sannarlega gert hann að sínum, en þótt ég fylli ekki í þeirra raðir þýðir það ekki að ég eigi ekki minn skerf af femínismanum líka.
Verst finnst mér bara þegar stillt er upp í andstæðar fylkingar að óþörfu og að þeir sem skrifa ekki undir róttæknina séu gerðir afturreka úr umræðunni eða þora ekki að taka þátt í henni. Ég mun allavega halda áfram að kalla mig femínista og reyna að leggja mitt af mörkum eftir eigin nefi, því femínistar þurfa ekki allir að vera eins.
Birtist sem pistill í Morgunblaðínu miðvikudaginn 4. apríl 2012.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli