Hættulegt hatur
Það var verulega ógeðfellt að sjá fjöldamorðingjann Anders Behring Breivik bresta í grát í réttarsal í Ósló á mánudag, þegar áróðursmyndband sem hann bjó sjálfur til var sýnt fyrir fullum sal. Breivik var snortinn yfir sjálfum sér. Þetta augnablik sagði meira um það hvaða mann Breivik hefur að geyma en allar þær fréttir sem borist hafa af hegðun hans í einangrun undanfarna mánuði. Meðal annars þannig þjóna réttarhöldin sínum tilgangi, þótt sitt sýnist hverjum um framkvæmd þeirra.
Ódæðisverkin sem Breivik framdi fara langt út fyrir skalann sem norskt réttarkerfi gerir ráð fyrir. Engin refsing virðist vera til sem hæfir brotinu. Sumir hafa tjáð þá skoðun sína að læsa ætti manninn inni strax og henda lyklinum án þess að gefa honum frekara færi á að baða sig í sviðsljósinu.
En þannig virkar réttarríkið ekki. Lögin gilda um Breivik eins og alla aðra, þótt hann sé andsnúinn grunngildum samfélagsins. Ódæðisverk hans megnuðu ekki að hafa slík áhrif að þeim gildum verði breytt. Þótt hann viðurkenni sjálfur ekki réttinn verður Breivik að sætta sig við það að samfélagið sem hann fordæmir svo mjög veitir honum réttláta málsmeðferð.
Fjöldamorðinginn Breivik er sprottinn úr sama menningarlega baklandi og flest ungt fólk á Norðurlöndum. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd og spyrja okkur hvað varð til þess að þær hatursfullu hugmyndir sem hann þróaði með sér leiddu hann á endanum til fjöldamorðs. Hann vísar til Noregs sem fangelsis og virðist ekki finna sér stað í samfélaginu, sem flestir telja þó gott. Hugarheimur hans er hættulegur vegna þess að hann gengur allur út á að stilla upp andstæðum fylkingum; „við“ og „hinir“. Þessar hugmyndir rakti hann nokkuð ítarlega í 1.500 blaðsíðna stefnuskrá sinni og af henni má ráða að sjálfsmynd Breivik byggist á því að samsama sig mjög þröngum hópi en leggja fæð á alla aðra.
Hann hatar þá sem eru af öðrum kynþætti en hann sjálfur, fyrst og fremst múslíma, hann hatar femínista, hann hatar fjölmenningarsinna og aðra þá sem starfa í þágu „menningarlegs marxisma“. Þetta fólk telur hann réttdræpt fyrir að grafa undan evrópska feðraveldinu, því sem veitir Breivik sjálfum óverðskuldaðan heiðurssess umfram annað fólk vegna þess eins hvernig hann lítur út.
Hatursorðræðan sem Breivik byggir gjörðir sínar á er óþægilega kunnugleg. Hún er nefnilega ekki bundin við hann einan, því hún skýtur upp kollinum í ýmsum myndum í umræðum á netinu. Fæstir þeir sem missa sig í hatursorðræðu á netinu myndu nokkurn tíma sýna það í verki enda ristir hatrið vonandi grynnra en orðfærið gefur stundum til kynna. En orðum fylgir líka ábyrgð. Við megum ekki gefa öfgamönnum sem leynast á meðal okkar tilefni til að halda að hatursfullar aðgerðir eigi sér bakland.
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 18. apríl 2012.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli