Kyndill
Fyrir nokkrum mánuðum keypti ég mér Kyndil frá Amazon. Hann varð brátt uppáhaldsgræjan mín á heimilinu (og utan þess) og ég þreytist seint á að mæra hans einföldu snilld við hvern sem heyra og lesa vill.
Ég keypti mér einföldustu og ódýrustu gerðina af Kyndli (hann kostaði um 17 þúsund kr.) vegna þess að þótt ég eigi mjög auðvelt með að gleyma mér tímunum saman við lestur er ég líka með athyglisbrest ef svarthol netsins er innan seilingar. Ég ver nú þegar allt of löngum tíma á netinu, ýmist í tölvunni eða símanum og þess vegna vil ég að bókin mín sé bara bók, jafnvel þó að hún sé rafbók.
Í Kyndlinum er samt þráðlaus nettenging svo ég get farið inn á Amazon, keypt bók með einum smelli og fengið hana senda á 10 sekúndum. Það er mjög freistandi og úrvalið í þessari stærstu bókabúð heims á gerir það að verkum að ég verð eins og krakki í nammibar Hagkaupa á laugardegi.
Lestrarupplifunin sjálf er ekki síðri með rafrænu bleki en á prenti að mínu mati. Kyndillinn er auðvitað mun handhægari og meðfærilegri en þykkustu doðrantarnir. Það var aðallega lyktin sem ég hafði áhyggjur af, ég er nefnilega ein af þeim sem þefa af bókum. Lykt af nýprentaðri bók er góð og fyllir mann af eftirvæntingu, en ég leysti þetta með því að kaupa mér fallegt leðurhulstur um Kyndilinn minn. Lyktin af leðri er nefnilega ekki síður góð.
Svo býður Kyndillinn upp á öðru vísi lestur en áður. Bæði er hægt að ná í ýmsa klassík frítt á netinu (í vikunni sótti ég mér t.d. ritgerðasafn Mark Twain ókeypis). Langar greinar á vefsíðum má senda í Kyndilinn ef maður nennir ekki að lesa þær af tölvuskjá. Núna sæki ég líka lesefni sem mér fannst ekki réttlætanlegt að kaupa áður og fá sent til landsins með tilheyrandi kostnaði.
Svo býður Kyndillinn upp á öðru vísi lestur en áður. Bæði er hægt að ná í ýmsa klassík frítt á netinu (í vikunni sótti ég mér t.d. ritgerðasafn Mark Twain ókeypis). Langar greinar á vefsíðum má senda í Kyndilinn ef maður nennir ekki að lesa þær af tölvuskjá. Núna sæki ég líka lesefni sem mér fannst ekki réttlætanlegt að kaupa áður og fá sent til landsins með tilheyrandi kostnaði.
Ég freistast til að kaupa bækur fyrir forvitni sakir, vegna þess að þær eru ódýrar á rafrænu formi. Kyndilinn er ekki hægt að dæma af kápunni, sem gefur manni frelsi til að lesa klámfengnar eða vandræðalega hallærislegar bækur á mannmörgum stöðum án þess að neinn viti af því. (Og lesturinn verður auðvitað mun skemmtilegri fyrir vikið). Vegna alls þessa er mín reynsla sú að eftir tilkomu Kyndilsins kaupi ég fleiri bækur en nokkru sinni fyrr.
Ef það er nógu auðvelt og ódýrt að nálgast efni löglega á netinu sé ég nefnilega enga ástæðu til að stela því. Ég vil mjög gjarnan styðja höfunda verkanna sem ég nýt með því að borga fyrir þau. Enn hef ég þó enga íslenska rafbók keypt. Ég einfaldlega tími því ekki.
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu föstudaginn 27. apríl 2012
4 ummæli:
This is not a comment about your blog. Just wanted to say I like your photos on flickr!
Thank you!
Do you go flickr often? I sent a contact request.
What I meant was do you go on flickr often.
Skrifa ummæli