Paradísin Zanzibar
Síðustu tveir dagar hafa farið í afslöppun og
yndislegheit á eyjunni Zanzibar í Indlandshafi. Það var kærkomið eftir alla
keyrsluna fyrstu vikuna. Á meðan við dveljum hér sef ég líka á hóteli, sem er
líka kærkomið, eftir tæpa viku í tjaldi.
Zanzibar er sjálfstjórnarríki sem heyrir undir Tanzaníu. Zanzibar
á sér langa verslunarsögu við Arabaheiminn og er undir sterkum áhrifum frá því.
Hér er íslam ráðandi trú og samkynhneigð var bönnuð með lagasetningu fyrir 10
árum. Því er kaldhæðnislegt að frægasti sonur Zanzibar skuli vera Freddy
Mercury, söngvari Queen, sem fæddist hér írönskum foreldrum og fékk nafnið
Farrokh Bulsara. Árið 2006 kom hópur róttækra íslamista á Zanzibar í veg fyrir
það að haldið yrði upp á að 60 ár væru liðin frá fæðingu Freddy Mercury, en hér
eru þó ýmsir minnisvarðar um hann og Zanzibar mun þrátt fyrir allt vera vinsæll
sumardvalarstaður meðal samkynhneigðra Suður-Afríkumanna.
Fyrsta sólarhringinn vorum við höfuðborginni, Zanzibar.
Miðborg hennar heitir Stone Town og er á heimsminjaskrá UNESCO. Hún var lengi
vel ein helsta verslunarmiðstöð Afríku. Hér er mikið ræktað af kryddjurtum og
ávöxtum sem Arabar keyptu, en sorgarsagan er sú að Zanzibar var líka miðstöð þrælaflutninga,
bæði til Arabalanda og Vesturheims. Þrælamarkaðurinn í Stone Town var sá
síðasti til að loka í Afríku. Þar er nú safn þar sem má meðal annars sjá
niðurgrafnar dýflyssur þar sem fólk var látið dúsa við ömurlegar aðstæður áður
en það var selt í þrældóm, þeir sem lifðu af.
Á staðnum þar sem þrælauppboðið
sjálft fór fram reistu trúboðar kirkju, sem er um leið minnisvarði um það sem
þar fór fram. Við altarið er m.a. rauð marmarahella, miðjan er hvítur hringur
sem táknar tréð sem þarna stóð, þar sem þrælarnir voru bundnir og hýddir til að
sannreyna hversu harðir af sér þeir væru. Rauði steinninn táknar blóðið. Breski
landkönnuðurinn Dr. Livingstone var sá sem beitti sér hvað harðast fyrir lokun
þrælamarkaðarins og minningu hans er mjög haldið á lofti. Hann lést síðar úr malaríu í Sambíu, en í kirkjunni á
Zanzibar er kross sem smíðaður er úr greinum trésins sem hann lá undir þegar
hann dó. Hjarta hans er grafið í Sambíu, en það tók rúmt ár að flytja sjálft líkið til greftrunar í Bretlandi.
Frá Stone Town keyrðum við á norðurenda eyjunnar, þar sem
við gistum tvær nætur við ströndina. Og þvílík strönd. Hún er einmitt eins og
paradís á að vera, skjannahvít og hafið túrkisblátt. Í dag sigldum við nokkur
út í litla eyju undan ströndu Zanzibar, Nemba heitir hún. Þar snorkluðum við í
kóralrifi og borðuðum grillaðan túnfisk með fersku mangói og engifer. Eftir marga klukkutíma svaml í sjónum hefur húðin fengið nógan skammt af sól og því sit ég hér í skugga á veröndinni með einn bjór, blogga og bíð eftir sólsetrinu.
Ég tók annars eftir því á siglingunni í dag að ekki nema 2-3 km meðfram ströndinni eru lagðir undir hótel. Eftir það taka við margir km af óbyggðri strandlengju. Zanzibar er túristastaður, en það kom mér á óvart hversu fáir ferðamenn eru þó hér. Ég myndi halda að hér sé talsvert rými fyrir frekari uppbyggingu. Ef einhver skyldi eiga sér draum um að hefja hótelrekstur!
Ég tók annars eftir því á siglingunni í dag að ekki nema 2-3 km meðfram ströndinni eru lagðir undir hótel. Eftir það taka við margir km af óbyggðri strandlengju. Zanzibar er túristastaður, en það kom mér á óvart hversu fáir ferðamenn eru þó hér. Ég myndi halda að hér sé talsvert rými fyrir frekari uppbyggingu. Ef einhver skyldi eiga sér draum um að hefja hótelrekstur!
Því miður siglum við héðan frá Zanzibar á hádegi á
morgun. Eins og ég sá fyrir, þá myndi ég gjarnan vilja vera hér aðeins lengur.
Næstu nótt verðum við í Dar Es Salaam, svo er talsverð keyrsla framundan næstu
daga á meðan við vinnum okkur í átt að landamærunum við Malaví. Vegirnir eru á
köflum alveg djöfullegir hérna og ferðin sækist hægt. Ég vissi að það yrði þannig
en þar sem Tanzanía er eitt helsta ferðamannaland Afríku var ég satt að segja
vongóð um að ástandið hér væri betra. Það kom mér á óvart hversu takmarkaður infrastrúktúrinn er og fyrir utan Zanzibar heyrir til undantekninga að maður sjái ferðamenn.
Almenna ástandið hér er á pari við það allra frumstæðasta sem ég sá í
Suðaustur-Asíu. Víða standa þó malbikunarframkvæmdir yfir. Mér skilst að það séu að stórum hluta Kínverjar sem standa fyrir vegalagningum og öðrum fjárfestingum hér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli