sunnudagur, febrúar 02, 2014

Malaví

Eftir 12 daga í Tanzaníu var förinni heitið yfir landamærin til Malaví þar sem ég hef verið síðustu daga. Á þessum rúmu tveimur vikum er hópurinn búinn að hristast ansi vel saman enda eru ferðafélagar mínir áhugavert fólk. Við erum ekki nema 12, þar af sjö á aldrinum 24-29 ára en fimm á milli 60 og 70 ára. Já, sú elsta er 70 ára kerling frá Tyrklandi og ansi skrautleg.

Krökkunum í Malaví finnst óhemjugaman að sitja fyrir á mynd og fá svo að sjá hana á skjánum.

Leiðsögumennirnir okkar tveir eru svo rétt um fertugt, báðir frá Simbabve. Við grínumst með það okkar á milli í hópnum að kalla þá Tímon og Púmba, því annar er hár og grannur en hinn lágvaxinn og kringlulaga. Þeir hafa með sér verkaskiptingu, annar keyrir og hinn sér um eldamennsku og almenna leiðsögn. Bílstjórinn, Thabi, er frábær náungi og í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum. Hann hefur verið sérstaklega almennilegur við mig, þar sem ég er ein, og hafði mig lengi í gjörgæslu eftir að ég veiktist fyrsta daginn. Hann kemur oft til að tékka hvernig mér gengur að tjalda, alltaf með bros á vör og réttir mér hjálparhönd ef þess þarf. Við höfðum áhyggjur af því að það væri þreytandi fyrir hann að sitja við stýrið og keyra í allt að 12 á lengstu ferðadögunum. Thabi kippir sér þó ekkert upp við það og þegar komið er á áfangastað skellir hann sér gjarnan í hlaupaskó og hleypur 8-10 km til að hressa sig við, og búa sig undir næsta maraþon í Simbabve.

Hinn leiðsögumaðurinn er líka frá Simbabve en pabbi hans stundaði nám í Þýskalandi og valdi syni sínum gamalt og gott þýskt nafn, Gottfried. Hann Gottfried er ágætur, en hann er mjög kaótískur og það er ekki nokkur leið að hann svari spurningu hreint út. Hann fer ótrúlegar krókaleiðir til að koma sér að efninu og heldur langar einræður þar sem maður skilur ekki helminginn sem hann segir. Svo á hann móment þar sem hann kemur á óvart líka, eins og þegar hann kvað sér hljóðs við kvöldverðarborðið um daginn til að flytja okkur blaðlaust mónolog úr Julius Caesar eftir Shakespeare. Gottfried má líka eiga það að hann er góður kokkur, enda vann hann áður sem slíkur á hóteli. Ég átti ekki von á sérstaklega góðu í mat á tjaldsvæðunum, svo það kom mér á óvart hvað honum tekst að galdra fram góða rétti. Þetta er þó einföld eldamennska, oftast hrísgrjón og grænmeti með einhvers konar kjöti, en ríkulega kryddað með ferskum hvítlauk og engifer og bragðast lystavel.  Við hjálpumst svo öll að við það að setja upp borð og stóla, ganga frá og þvo upp eftir matinn.
Thabi og Gottfired kokka ljúffengan kvöldmat handa okkur í tjaldbúðunum við Malavívatn.

Hópurinn er skemmtilega blandaður úr 8 þjóðernum. Frá Sviss er ungt par, Sascha og Sina. Frá Brasilíu koma systurnar Vanessa og Marcella, sem eru þær einu í hópnum sem munu fylgja mér alla leið til Höfðaborgar. Vinkonurnar Tara og Kate vinna báðar sem hjúkrunarfræðingar í London, en Tara er frá Kanada og Kate frá Ástralíu. Þar með er unga liðið upp talið, eldra settið er tvær króatískar vinkonur um sextugt, Tanja og Jadranka, sem eru eiturhressar. Fyrstu vikuna var í hópnum ungt og sprækt par frá Þýskalandi. Bæði störfuðu sem flugmenn hjá Lufthansa, en þau kvöddu okkur á Zanzibar. Í staðinn fengum við í hópinn ensk hjón um sextugt, Francis og Judy. Þau eru efri miðjustéttar bretar, þaulvanir ferðalangar og þrælskemmtileg. Þau eiga skútu og sigla mikið og Francis fór með mig út á Malavívatn í gær á tveggja manna bát og kenndi mér helstu handtök við að haga seglum eftir vindi.

Kvenleggurinn í hópnum útbjó sér blómakransa í tilefni afmæli einnar úr hópnum í gærkvöldi.

Það er svolítið sorgleg tilhugsun að við Viktoríufossa skilur leiðir, því bróðurhluti hópsins fer þaðan skemmri leið til Jóhannesarborgar, en ég og brasilísku systurnar förum í annan trukk, með nýju fólki til að fara gegnum Namibíu og vesturströnd Suður-Afríku til Höfðaborgar. Þá munum við kynnast heilum nýjum hóp af fólki, sem verður vonandi skemmtilegt líka, en ég veit að ég mun sakna þessara góðu ferðafélaga.

Fallega Malaví


Malaví er afskaplega fallegt land. Um þriðjungur landsins er vatnið stóra, það þriðja stærsta í Afríku, en frá ströndum þess rís landið hratt upp í háar hlíðar. Ólíkt nágrannalöndunum eru hér engir verðmætir málmar eða eðalsteinar, efnahagurinn byggir fyrst og fremst á landbúnaði. Fram til þessa var Laos fátækasta land sem ég hef heimsótt, en ég held að Malaví sé enn neðar á Human Development lista sameinuðu þjóðanna. Um eða yfir 80% þjóðarinnar býr í dreifbýli við mikla fáækt. Malavíbúar eru hinsvegar frægir fyrir að vera einhvera vinalegasta þjóð Afríku og það er engu um það logið. Það er líka áhugavert að Malaví er talsvert snyrtilegra  en Tanzanía þótt fátæktin sé meiri hér. Ég velti fyrir mér hvort það sé vegna þess að einkaneyslan sé enn minni hér, og þar með minna af rusli, því í Tanzaníu var víða mikið rusl í vegköntum. Önnur skýring er sú að í Malaví er þykkur og mikill jarðvegur sem hentar vel til múrsteinagerðar. Hér býr fólk því í múrsteinshúsum, sem eru óneitanlega huggulegri en ryðguðu bárujárnskofarnir sem maður sá svo gjarna í Tanzaníu.

Konurnar vinna erfiðisstörfin. Þar á meðal þvottana á ströndu Malavívatns.

Við höfum nú keyrt suður eftir Malavívatni og gist á tveimur stöðum á ströndinni. Ég hafði séð fyrir mér að hinir týpísku fylgifiskar strandhótela yrðu til staðar, þ.e. litlir sölubásar með flipflop-sandölum, sundfötum etc. Á ströndinni í kringum hótelið/tjaldsvæðið okkar var hinsvegar ekkert slíkt. Mér tókst að brjóta sólgleraugun mín, með því að stíga á þau í myrku tjaldinu, en það var hvergi hægt að kaupa sólgleraugu svo ég varð að fá lánuð frá Töru til að nota á ströndinni.

Ég gekk meðfram ströndinni í báðar áttir og fylgdist með fiskimönnum hnýta net, konum þvo þvott og börnum að synda nakin í vatninu. Ekkert sem gaf til kynna að þetta væri ferðamannastaður. Vatnið teygir sig svo langt sem augað eygir og við sjóndeildarhringinn sjást himinháir, svartir strókar af flugnageri. Svo háir eru þeir að ég hélt fyrst að þetta væru einhvers konar borpallar úti á vatninu. Flugurnar lifa ekki nema í sólarhring og ef þær ná landi áður en þær drepast safna heimamenn þeim saman og borða þær í e-s konar flugustöppu.

Það er svo fátíður lúxus að komast í netsamband hérna að þegar það gerist þá veit ég ekki hvar ég á að byrja til að segja frá öllu því sem ég sé og upplifi í þessari Afríkuferð. Í kvöld gat ég keypt fyrirframgreitt kort með 200 MB af neti, sem er fljótt að klárast svo ég þarf að forgangsraða hvað ég geri því að kortin eru uppseld og þar með er þessi auðlind, internetið, uppurin að sinni. Ég er núna stödd í útjaðri Lilongwe, höfuðborgar Malaví. Á morgun förum við yfir landamærin til Zambíu þar sem við verðum tvær nætur í þjóðgarðinum Luangwa, þar sem á víst að vera magnað dýralíf.

1 ummæli:

sveitolina sagði...

Dásamlegar myndir og takk fyrir að forgangsraða þannig að netheimildin þín fari í að deila með okkur ferðasögu. Þú skrifar líka svo lifandi og skemmtilegan texta. Það er ekki öllum gefið. Sumir hafa einfaldlega enga NENNU til tjá sig eða þörf fyrir samskipti. Sakna þín elskan mín.