laugardagur, mars 01, 2014

Vagga mannkyns eða það sem eftir er af henni

Ferðamennska í Afríku er frábrugðin dæmigerðum utanlandsferðum að því leyti að hér er í raun ekki svo mikið af eiginlegum kennileitum eða „sights“. Fæstir koma til Afríku til að skoða arkitektúr, enda byggingar fáar og fátæklegar. Þéttbýli og borgir eru (með nokkrum undantekningum) oft bara dreifðar húsaþyrpingar þar sem er ekki endilega mikið við að vera þannig lagað, lítið um leikhús eða kvikmyndahús, bari eða næturlíf eins og við þekkjum það. Hér eru ekki gulli skreyttar trúarlegar byggingar, fornar minjar eða listasöfn á hverju strái. Náttúran er stórfengleg en á milli náttúruperla getur verið óralöng, tilbreytingarlítil keyrsla eftir erfiðum vegum.

Dæmigerð sjón meðfram veginum í Tansaníu.

Augljósir túristastaðir eru því fáir og langt á milli þeirra svo ferðalag um Afríku snýst í raun að miklu leyti um það að upplifa sjálft umhverfi og andrúmsloft þessarar einstæðu álfu. Ég er enn sannfærðari en áður um að svona „overlanding“ ferðalag sé eina leiðin til að kynnast Afríku í raun, frekar en að fljúga milli staða, því aðeins þannig nærðu að átta þig á því hvernig landið liggur, skynja náttúruna, dýralífið og mannlífið.

Margir koma til Afríku gagngert vegna dýralífsins, enda er það engu líkt og hér eru margir mögnuðustu þjóðgarðar heims. Sjálf fæ ég aldrei nóg af því að sjá fíla og gíraffa í vegkantinum, en þótt það sé alltaf gaman að fylgjast með hegðun dýranna þá fer nýjabrumið tiltölulega fljótt af því (áður en fyrsta vikan var liðin var ég búin að taka nægar myndir af sebrahestum fyrir lífstíð).

Sætur sebra...en á endanum renna þeir allir saman í eitt!

Í mínum huga er það mannlífið sem stendur upp úr, nú þegar þessari Afríkureisu fer senn að ljúka. Ég er mjög heilluð af því, í öllum sínum fjölbreytileika.

Þessar konur í Sambíu sýndu okkur twerk eins og twerk á að vera. Sú í gula og bláa kjólnum var matríarkið í þorpinu.

Í flestum löndunum sem ég hef heimsótt er mikið lagt upp úr því að heilsast með virktum, það er hluti af menningunni. Fólk brosir breitt hvort til annars, handaböndin eru löng og innileg. Samtöl hefjast á því að innt er eftir líðan og ókunnugir spyrja gjarnan hvaðan þú kemur, hvernig þú kannt við þig í Afríku og ósjaldan þarftu að rekja fjölskylduhagi þína í stuttu máli. Í mörgum tungumálanna er líka hefð fyrir því að ávarpa fólk sem vinur, systir eða bróðir og þetta gerir það að verkum að samskipti fólks virka á mann sem mjög vinaleg og glaðleg. („Jambó rafiki!“ á Swahili, „Yebo baba!“ í Ndebele-máli Simbabve).

"Baba?" - "Yebo!" Þannig hófust nánast öll samtöl milli Godfree og Thabi. Það gladdi mig í Cape Town í gær að heyra tvo ókunnuga menn, væntanlega frá Simbabve, eiga sömu samskipti úti á götu.


Lendaskýlur og nútíminn


Eitt af því sem hefur komið mér á óvart í þessari Afríkuferð er hversu mikið enn má sjá af raunverulega fornri ættbálkamenningu.  Eitt af stóru verkefnum Afríku á 21. öldinni er að finna jafnvægi milli gamalla siðvenja og nútímans. Gefa þeim rými sem vilja viðhalda sínum lífsháttum án utanaðkomandi afskipta, en tryggja um leið mannréttindi og jöfn tækifæri. Í þessu samhengi er mér efst í huga misþyrmingar á kynfærum kvenna og raunar staða kvenna almennt því í flestum samfélögum Afríku eru þær lægra settar körlum - samkvæmt hefðinni. Sumstaðar er það t.d. venjan að konur vinni mestu erfiðsvinnuna líkamlega, en borði ekki fyrr en karlarnir eru búnir, og þá afgangana.  Börnin reka svo lestina í virðingarröðinni.


Meðal þeirra þjóðarbrota sem ég hef komist í kynni við á þessu ferðalagi eru Maasai-fólkið í Austur-Afríku og Herero, Himba og San-fólkið i suðurhluta Afríku. Ég ætlaði varla að trúa því fyrstu dagana í Tansaníu að enn væri svona mikið af fólki sem lifir sem hirðingjar. Það kom mér á óvart því ég átti allt eins von á að ættbálkaþorp í Afríku í dag væru bara túristagildrur þar sem fólk klæðir sig í búninga til að græða pening. Svo er ekki, Maasai-menningin blómstrar enn og er mjög áberandi í Tansaníu.

Það er falleg sjón að sjá Maasai-mennina litríku bera við landslagið í Austur-Afríku.

Í Namibíu var sömuleiðis merkilegt að sjá Himba-konur ganga eftir götum höfuðborgarinnar. Windhoek er nefnilega mjög evrópsk og nútímaleg borg á allan hátt, en Himba-konurnar ganga um berbrjósta í lendaskýlum. Hefðinni samkvæmt þvo þær sér ekki með vatni, aldrei nokkurn tíma, heldur baða sig með reyk í hreinlætisskyni. Á hverjum degi smyrja þær sig með jurtablöndu sem gefur húð og hári okkurrauðan lit og afar fallega áferð.

Á spjalli við Himba-konur í Namibíu. Þær vildu vita um mína persónulegu hagi, hvort ég ætti mann og börn.

Í Namibíu og Botsvana má líka víða sjá Herero-konur á götum úti. Ólíkt hálfnöktu Himba-konunum eru Herero-konurnar kappklæddar og áberandi litríkar. Kjólarnir eru stórir og miklir, i viktoríönskum stíl að fyrirmynd þýskra trúboða í byrjun 20. aldar. Á höfðinu bera þær stóra, framstæða hatta sem eiga að líkja eftir hornum á kúm. Herero-fólkið er fyrst og fremst kúabændur, búpeningurinn er merki velsældar og hornin tákn um kvenleika.

Herero-konur í sínum mikilfenglegu kjólum og höttum. Ég keypti brúðu og veski af þessum ágætu konum í vegkantinum.

Svo er það San-fólkið, Búskmennirnir svo kölluðu sem ég hef áður nefnt hér. Þetta eru hinir upprunalegu frumbyggjar Afríku, fyrsta fólkið, sem gerði víðreist um álfuna eftir veðri og vindum. Í dag er það aðeins að finna í Botsvana og Namibíu, þar sem staða þeirra er mikið pólitískt bitbein, og í Angóla sem er eina landið þar sem San-fólkið lifir enn flökkulífi eins og það hefur gert í þúsundir ára. Evrópskir nýlendubúar í suðurhluta Afríku litu á Búskmenn sem hver önnur villidýr og á fyrri hluta 20. aldar voru gefin út veiðileyfi á þá. Síðar voru reist sérstök þorp fyrir San-fólkið þar sem það var skikkað til að hafast við og láta af lífsháttum sínum í friðlendum Kalahari-eyðimerkurinnar. Þvingaðir búferlaflutningar eru enn staðreynd og síðast árið 2006 gerðu Sameinuðu þjóðirnar athugasemd við meðferð stjórnvalda í Namibíu og Botsvana á San-fólkinu.

Ungur Búskmaður sýnir með dramatísku látbragði að rætur sem hann gróf úr jörðu geti læknað höfuðverk.

Þetta er samt erfið klemma, því óneitanlega er það svo að þeir lífshættir sem San-fólkið vill stunda eiga litla sem enga samleið með nútímanum. Kynni mín af San-fólkinu er liklega það sem kemst næst því í þessari ferð að vera bara túrista-stönt. Það mætti færa rök fyrir því að þetta hafi bara verið fólk í búningum að halda sýningu, en þó ekki alveg. Enn er San-fólk á lífi sem ólst upp við fornar venjur og sumir af ungu kynslóðinni reyna með veikum mætti að halda í þá arfleifð. Peningar frá ferðamönnum er ein af fáum tekjulindum sem þau hafa til að lifa af í samfélagi sem meinar þeim að eigra frjáls um og veiða sér til matar. Eftir 1-2 kynslóðir er líklegt að menning San-fólksins verði horfin eða í besta falli til á safni. Sorgleg tilhugsun.

San-fólkið reynir af veikum mætti að viðhalda menningu sem á litla samleið með nútímanum.

Siðmenning og villimennska?


Sjálfsagt bíða sömu örlög fleiri þjóðarbrota Afríku sem þrátt fyrir allt stunda enn forna lifnaðarhætti. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að ferðast um Afríku og kynnast menningu þeirra á meðan hún er enn til. Hversu fljótt ætli þessi óvenjulegu litbrigði mannlífsins muni þurrkast út með alþjóðavæðingunni? Og er það jákvætt eða neikvætt? Við brasilísku systurnar ræddum þetta talsvert okkar á milli og reyndum að horfast í augu við þá staðreynd að við, sem ríkir vesturlandabúar, erum innst inni sannfærðar um yfirburði eigin menningarstigs gagnvart ættbálkamenningunni, en viljum samt eiginlega ekki að þau verði eins og við, því það er spennandi að geta ferðast og skoðað eitthvað framandi. Samanburðurinn við dýragarð kom óneitanlega upp í hugann. Það er samt ósanngjarnt, því ég varð ekki vör við annað en að öll samskipti við frumbyggja innan ramma ferðamennskunnar væru af fullri virðingu.

Sumt sem fyrir augu ber í Afríku er eins og endurlit aftur í aldir.

Í upphafi Afríkuferðarinnar las ég bókina Out of Africa eftir Karen Blixen. Hún er frábær lesning, ljóðrænn og fallegur prósi sem lýsir djúpri ást á Afríku. Á sama tíma er orðfærið áhugavert, því hugsunarháttur nýlendutímans er svo áberandi. Þótt Karen Blixen þyki vænt um fólkið í Afríku skín samt í það viðhorf að frumbyggjarnir séu nokkurs konar önnur dýrategund en hinn siðmenntaði, hvíti maður. Hún telst tæpast pólitískt kórrétt í nútímanum, því Blixen hikar ekki við að tala um eigin lífsstíl sem siðmenningu, á meðan frumbyggjarnir eru villimenn. Hún alhæfir um heilu hópana, allir Maasai-menn séu svona og allir Sómalar hinsegin.

Þetta stakk mig í augu þegar ég las bókina í byrjun ferðar en satt að segja skil ég þetta aðeins betur eftir því sem liðið hefur á ferðina og ég hef fengið að læra aðeins um misjafna menningu þessara þjóðarbrota. Í grunninn er fólk auðvitað bara fólk, en heimssýnin getur verið svo gjörólík.

Gagnkvæm forvitni í Maasai-þorpi.

Er það af hinu góða að við samlögumst öll í einn hrærigraut alþjóðamenningar? Allavega hefur það aukið samkennd okkar með fólki í öðrum heimshlutum. Nærtækt dæmi úr þessari sömu ferð er vinskapur minn við Katie frá Ástralíu og Töru frá Kanada. Hver frá sinni heimsálfunni, en svo rækilega staðsettar á áhrifasvæði enskrar tungu og dægurmenningar að reynsluheimur okkar sem jafnaldra er nánast algjörlega sá sami, með örlitlum blæbrigðum.

Ég vissi að við yrðum vinkonur strax frá fyrsta degi, þegar ég heyrði að þær höfðu stillt upphafstóna Circle of Life úr Lion King sem vekjaraklukkuna sína. (Til að skapa réttu stemninguna fyrir Serengeti-safaríið, nema hvað.) Síðar, þegar við sötruðum bjór á ströndinni á Zanzibar, tengdum við í sameiginlegu nostalgíukast yfir 90s tónlistinni á barnum. Við höfðum allar vangað við sama væmna popplagið í gaggó.

Katie, Tara og undirrituð í Okavango-ánni í Botsvana, með strákunum sem réru með okkur á makoro-bátum. Þeir voru allir á svipuðum aldri og við og mjög hressir.
Menning ættbálkanna í Afríku nær hinsvegar skammt út fyrir veggi hvers þorps fyrir sig. Auðvitað ber okkur ber að virða og varðveita ólíka menningararfleifð, sem í tilfelli þessara þjóða er stórmerkileg og um margt falleg. Ég get samt ekki annað en velt vöngum yfir því hvort jafnöldrur mínar í afrískum frumbyggjasamfélögum myndu ekki vilja lifa öðru vísi lífi, ef þær hefðu vitneskju um það og tækifæri til þess. En það er ekki mitt að segja til um það.


1 ummæli:

sveitolina sagði...

þú ert svo sannarlega heimskona og ekki heimsk ona enda ekki mjög lengi eða markvisst heimaalið barn. Víðförul að verða og víðsýn eftir því. Þetta er vel skrifaður og persónulegur texti hjá þér sem kemur fallegum og djúpum pælingum vel til skila. Manni finnst fólkið sem þú hittir og kynnist verða vinir manns og heimurinn færast nær og verða notalegri og betri. Við eigum þetta heimili öll saman það heitir JÖRÐ. Ég er stolt af þér. Kveðja mamma.