föstudagur, febrúar 21, 2014

Að tjalda í Afríku

Í samanburði við mekka bakpokaferðalangsins, Suðaustur-Asíu, þá er frekar dýrt að ferðast um Afríku. Þótt það sé kannski öfugsnúið, þá er dýrt að ferðast um þar sem infrastrúktúrinn er lítill. Í Asíu má víða fá þokkaleg hótelherbergi með loftræstingu á 5-10 dollara. Sú er ekki raunin hér, því algengt verð fyrir ódýrustu hótelherbergi eða búngalóa er 30-50 dollarar nóttin.

Ódýri valkosturinn er að tjalda, og það jákvæða er að hér er nokkuð þétt net ágætra tjaldsvæða. „Ferðamennska“ um Afríku hófst í tjöldum og sá kúltúr blómstrar enn. Yfirleitt kostar 5 dollara nóttin að tjalda á svæði þar sem er aðgengi að útiklósettum eða kömrum og sturtum. Stundum eru tjaldsvæðin samhliða búngalóum eða litlum hótelum og í Tansaníu gistum við undantekningarlítið á afgirtum tjaldsvæðum þar sem stundum voru vopnaðir verðir. Ég var ekki alltaf viss um hvort rifflarnir áttu að verja okkur gegn dýralífi eða mannlífi, en frá og með Malaví hefur starfsfólk í mesta lagi verið vopnað teygjubyssum, til að fæla burt apana.

Horfst í augu við ljón í Etosha-þjóðgarðinum.

Tjöldin sem Nomad skaffar okkur eru einföld að gerð, stór kúlutjöld úr þungum striga sem hengdur er með krókum á sterka járngrind. Þetta virðast vera mjög dæmigerð Afríkuferða-tjöld því flest tjöld sem ég hef séð eru svipaðrar gerðar.

Það er djöfulsins basl að koma tjaldinu upp og taka það niður, ekki síst þegar maður er einn eins og ég. Rytminn í samfélaginu hér fylgir sólarupprás og sólsetri. Í Austur-Afríku, þar sem vegalengdirnar voru erfiðastar, vorum við oft lögð af stað fyrir sólarupprás og ég viðurkenni að það komu stundir þar sem ég var gráti nær við að drösla tjaldinu mínu ofan í poka í niðamyrkri, því ég var sú eina sem þurfti að gera það á eigin spýtur, allir aðrir ferðuðust í pörum og voru fljótari að þessu en ég. Næturnar voru yfirleitt heitar og rakar, sem þýddi að jörðin var blaut og tjaldbotninn drullugur. Fyrir B-manneskjuna mig tók það svolítið á að vera orðin aurug upp fyrir hné og olnboga, kófsveitt og lafmóð fyrir klukkan 5:30 á morgnanna og hafa svo 10 mínútur til að svolgra í sig Cornflakes með volgri mjólk og tebolla áður en trukkurinn brunaði af stað.


Buffaló-hauskúpur á tjaldsvæðinu í Serengeti.

Engu að síður er þetta frábær ferðamáti í Afríku og ég kunni fljótt mjög vel við tjaldið mitt. Það er ekki endilega betra að hafa þak yfir höfuðið. Herbergin geta verið mjög misjöfn að gæðum en í tjaldinu mínu veit ég alltaf að hverju ég geng, þótt ég setji það upp á nýjum stað, og til þessa hefur það verið algjörlega laust við moskítóflugur, ólíkt mörgu hótelherberginu. Það var líka mikill persónulegu sigur þegar mér tókst að koma járngrindinni upp alein, án hjálpar og nú eftir nokkrar vikur þykir mér þetta lítið mál, þótt ég svitni reyndar enn við að rúlla tjaldinu upp og troða í pokann, því það er níðþungt.

Afríka er svört


Almennt hafa afrísku tjaldsvæðin komið mér þægilega á óvart, stundum eru þau bara mjög hugguleg, þótt annars staðar, sérstaklega í þjóðgörðunum, sé aðstaðan mjög hrá og jafnvel engin. Uppáhalds tjaldsvæðin mín til þessa voru á brún Ngorongoro-gígsins, á kaffibaunaplantekru í Suður-Tansaníu, á ströndinni við Malavívatn og á árbakka Luangwa-árinnar í Sambíu, þar sem flóðhestarnir gengu milli tjaldanna á nóttunni.

Síðustu þrjár nætur höfum við tjaldað í óbyggðum Norður-Namibíu, tvær nætur í Etosha-þjóðgarðinum þar sem var lágmarksaðstaða og þá síðustu við hið sérkennilega fjall Spitzkoppe, einnig þekkt sem „Matterhorn Namibíu“. Þar var hvorki rennandi vatn né rafmagn en umhverfið alveg hreint stórkostlega fallegt.

Náttúrulaug í klettunum við Spitzkoppe.

„Afríka er svört“ sagði Godfree gjarnan og meinti það bókstaflega. Rafmagnlýsing er oft af skornum skammti og vasaljós algjör lífsnauðsyn á svona ferðalagi, bæði til að lýsa sér leið og til að ganga úr skugga um að engin hættuleg dýr verði á vegi manns á leiðinni í bælið!

Myrkrið þýðir hinsvegar líka að næturhimininn í Afríku er oft alveg ótrúlega stjörnubjartur og fagur. Ég fékk fyrst að njóta þess í Serengeti, þar sem næturnar einkenndust af stjörnubliki, hýenuhlátri og öskrum í ljónum. Magnaðasta stjörnuhimininn sá ég samt síðustu nótt, við Spitzkoppe. 
Spitzkoppe við sólsetur.

Þegar við brasilísku systurnar, Vanessa og Marcella, komumst að því að Martin bílstjórinn okkar sefur oft uppi á þaki á trukknum, þá ákváðum við að slást í lið með honum. Tjaldið fékk því að hvílast síðustu nótt, og þegar varðeldurinn var farinn að kulna og síðustu grilluðu sykurpúðarnir höfðu verið étnir þá hentum við svefnpokunum okkar upp á þak og klifruðum upp á trukkinn. Það er ógleymanlegt að sofna undir berum stjörnuhimni í Namib eyðimörkinni. Að vísu varð svolítið kalt, enda vorum við í 1.000 metra hæð yfir sjávarmáli, en fyrir Íslendinginn var það hressandi eftir ófáar hitabeltisnætur.

Stuð í Namib-eyðimörkinni.


Að lokum birti ég hér til gamans mynd af nokkrum hlutum sem hafa reynst mér afar vel í þessari löngu Afríku-útilegu. Allt eru þetta léttir og fyrirferðarlitlir pinklar, en afar nytsamlegir.

  1. Svefnpokinn er ómissandi. Ég var ekki viss fyrst hvort ég þyrfti alvöru svefnpoka, en næturnar í Afríku geta verið kaldar, sérstaklega í mikilli hæð eins og í Ngorongoro og Spitzkoppe.
  2. Luktin. Ein bestu kaup ferðarinnar, í vegkanti í Tanzaníu. Ljósið er nógu sterkt og langdrægt til að lýsa upp flóðhesta sem leynast í runnum.
  3. Ofurlétti dúnjakkinn minn. Eins og með svefnpokann hefur komið mér á óvart hve oft ég þarf þennan, það er oft svalt þegar sólin er sest. Svo treð ég honum ofan í poka og það fer ekkert fyrir honum.
  4. Vatnsbrúsinn. Hann er úr mjúku plasti og pakkast vel tómur, en aðalmálið er krókurinn svo ég get hengt hann á poka eða buxnastreng og haft lausar (og svitalausar) hendur.
  5. Kyndillinn og litla lesljósið á honum. Ótakmarkað magn af lesefni og fyrirferðalítill náttlampi til að lesa mig í svefn í tjaldinu.
  6. Eyrnatappar. Því stundum heyrast hrotur úr nágrannatjöldunum og stundum eru næturdýrin einfaldlega of hávær.
  7. Travel-light silkipokinn. Þegar næturnar eru of heitar og sveittar fyrir svefnpokann hefur þessi komið sér mjög vel. Oft breiði ég úr svefnpokanum undir mig en hef silkipokann ofan á mér.
  8. Uppblásni memory-foam ferðakoddinn. Ég er þvílíkt ánægð með að hafa fundið þennan á Amazon rétt fyrir ferðina, algjör snilld.

Engin ummæli: