miðvikudagur, maí 02, 2012

Ótti kvenna

Stuttu eftir að ég eignaðist minn fyrsta gemsa varð ég hrædd á leið heim til mín, ein í myrkri, svo ég greip til þess ráðs að stimpla inn 112 og hafa fingurinn tilbúinn á „call“ takkanum. Ég hafði nýlega séð nauðgunarsenu í bíómynd sem sat í mér. Auðvitað gerðist ekki neitt, en þetta var ekki í síðasta skiptið sem ég gekk heim tilbúin að hringja í Neyðarlínuna. 

Mörgum árum síðar nefndi ég þetta í kvennahópi og þá kom í ljós að flestar höfðu gert það sama. Ein sagðist alltaf ganga með lyklakippuna í hnefanum ef hún var ein, en einn lykil milli fingranna, til að geta betur slegið af sér hugsanlegan árásarmann. Þegar ég nefndi þetta við karlkyns vini voru viðbrögðin ýmist hlátur yfir því hvað við værum nú allar móðursjúkar eða meðaumkun og uppástunga um að við færum á sjálfsvarnarnámskeið til að láta okkur líða betur. 

Ég hef fyrir löngu látið af þessum 112-vana, enda er ég yfirleitt ekki hrædd þegar ég geng einsömul heim til mín og vil heldur ekki láta daglegt líf mitt stjórnast af ótta, jafnvel þótt fleiri en ein kona hafi orðið fyrir hópnauðgun úti á götu í hverfinu þar sem ég bý. Mér varð samt hugsað til þessa þegar stóra bílastæðamálið við Hörpu kom upp í síðustu viku. 

Óttast konur á Íslandi bílastæðahús og hafa þær ástæðu til að vera hræddar? Viðbrögðin við kvennabílastæðunum benda sem betur fer til þess að svo sé almennt ekki, en þó skyldi ekki gera lítið úr þeim konum sem finna fyrir slíkum ótta. Það sem skelfir mig samt meira en bílastæðahús er sú samfélagslega sátt sem virðist stundum ríkja um það, að eina leiðin til að koma í veg fyrir nauðganir sé sú að konur breyti hegðun sinni. 

Um allan heim virðist hugmyndafræðin vera sú sama: Reynt er að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi með því að skerða athafnafrelsi kvenna, þeim til verndar. Sumstaðar er konum bannað að fara út úr húsi nema í fylgd með karlkyns ættingja, þeim til verndar. Í þessu tilfelli er lausnin sú að gera konum kleift að leggja alveg við innganginn svo þær þurfi að verja sem skemmstum tíma einar undir beru lofti. Þetta er vel meint, en skapar bara falsöryggi og er engin tilraun til að takast á við þann samfélagsvanda sem kynferðisofbeldi er. 

Hvað hefði svo gerst ef kona hefði lagt í hinum enda bílastæðahússins og verið nauðgað eftir tónleika? Hefði þá hinn kunnuglegi kór farið af stað: „Hvað var hún líka að gera ein í bílastæðahúsi um kvöld? Af hverju lagði hún ekki við innganginn? (Og af hverju var hún í svona stuttu pilsi?)“ 

Þótt flestir hafi andstyggð á nauðgunum, láta fæstir sig málið raunverulega varða. En kynferðisofbeldi er ekki bara kvennavandamál sem konur geta sjálfar leyst með því að klæða sig á ákveðinn hátt, vera aldrei einar á ferð og leggja í sérmerkt bílastæði – eða vera beintengdar við Neyðarlínuna. Nauðganir verða aldrei upprættar ef karlar yppa bara öxlum yfir þessari ógn í lífi kvenna og segja: „Viltu ekki bara fara á sjálfsvarnarnámskeið?“

Engin ummæli: