miðvikudagur, maí 30, 2012

Gamlar sálir Reykjavíkur

Þegar kirkjuklukkurnar hringdu níu sinnum að morgni annars í hvítasunnu vöknuðu húseigendur Freyjugötu 25 B í Reykjavík eftir aðeins fjögurra stunda svefn.

Það var samt ekki klukknahljómurinn sem truflaði svefninn heldur traustabrestir í húsinu, sem hafði mátt þola fremur harkalegan umgang þá um nóttina, enda blásið til veislu þar sem fjöldi gesta var nokkurn veginn á pari við fermetrana. Húsið virtist timbraðara en við gestgjafarnir þennan morgun, ekki bara í bókstaflegri merkingu, og þótt undirrituð væri þakklát fyrir að vakna heil heilsu var ekki laust við að samviskubit gerði vart við sig gagnvart blessuðu bárujárninu. Það var víst áreiðanlega ekki byggt með það í huga að verða dansgólf, enda kveinkaði það sér undan okkur.

Auðvitað er það þannig að ég á þetta fallega litla hús að Freyjugötu 25 B, stimplaðir pappírar frá sýslumanni geta vottað það, og þess vegna ræð ég svo sem hvað ég geri við það, innan húsverndunarmarka. Samt er ekki laust við að mér líði svolítið eins og gesti í húsinu mínu, því þótt ég hafi búið þar í sjö ár veit ég að svo ótal margir hafa kallað húsið sitt á undan mér og aðrir munu vonandi gera það á eftir mér líka. Það er þannig með hús að þótt þau séu úr dauðu efni geta þau verið afskaplega lifandi, líkt og líf allra þeirra sem dvalið hafa innan veggja þess skilji eftir sig svolítinn neista og sögu. Það er engin tilviljun að talað er um gömul hús með sál. 

Húsið mitt tilheyrir fyrstu kynslóð húsa sem reist voru með miklu basli í jaðri byggðar efst á Skólavörðuholti við lok fyrra stríðs. Guðlaug Jónsdóttir ekkjukona reisti það samkvæmt skrám árið 1921. Ég veit ekki hver hún var en kann henni þakkir fyrir að vanda til verksins. Þá var mikill skortur á bæði húsnæði og byggingarefni í Reykjavík og engin skipulagslög í gildi. Nú 90 árum síðar er fólk enn að villast inn í portið í leit að öðrum húsnúmerum. Þótt húsið mitt sé aðeins 38 fm að grunnfleti á tveimur hæðum skilst mér að á tímabili hafi íbúðirnar verið fjórar umhverfis stóra skorsteininn, sem hélt hita á fólkinu þá en er í daga bara skrautmunur og minnisvarði um fyrri tíð. Nú búum við bara tvö í húsinu. Lífskjör Reykvíkinga hafa sannarlega batnað.

Grúsk í gömlum dagblöðum leiddi í ljós að árið 1927 var hægt að fá gert við kjöt- og sláturílát eða smíðuð ný hjá einum íbúanna í húsinu. 1930 var auglýst eftir einhleypum karli til að leigja herbergi í húsinu, en árið 1937 var það á lista í Þjóðviljanum yfir óhæfar kjallaraíbúðir í Reykjavík. Þökk sé umhyggju þeirra sem á undan fóru er húsið þó hér enn og kjallarinn langt frá því að vera óhæfur. Þar sofnuðu núverandi húseigendur vært eftir þrítugsafmælið á sunnudag en hrukku sem fyrr segir upp þegar hið níræða hús gerði vart við sig með brestum.

Ég gat ekki að því gert að klappa veggjunum svolítið þegar ég fór á fætur og lofaði því í hljóði að skila húsinu mínu fallegu og með sál til næstu kynslóðar Reykvíkinga. 

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 30. maí 2012.

Engin ummæli: