föstudagur, júní 01, 2012

Heimur Unu - Af kynlífi kvenna

Fyrst þegar hann fór inn í hana var það hræðilega sárt en fljótlega fór það að verða gott... þar til hún fékk raðfullnægingu.

Nokkurn veginn svona (í einfölduðum útdrætti undirritaðrar) hljómaði lýsingin á fyrstu kynlífsreynslu aðalkvenhetjunnar í bókinni Norwegian Wood eftir þann ágæta höfund Haruki Murakami, sem ég las á mínum unglingsárum. Nú ætla ég ekki að fullyrða eða taka of stórt upp í mig (...) en ég held að fyrsta kynlífsupplifun fæstra kvenna rími við þessa senu.
Konur njóta samt almennt kynlífs og flestar fá sína fullnægju með tímanum, jafnvel í röðum, og eiga líka sínar kynlífsfantasíur. Engu að síður hefur staðan lengi verið sú að yfirgnæfandi meirihluti kynlífsefnis, kláms og erótíkur, er framleiddur af körlum fyrir karla og er sömu takmörkunum háður og lýsingar Murakamis á afmeyjun skólastúlkunnar, þ.e. samhljómurinn er lítill við hugarheim kvenna.
Það þarf ekki að fletta lengi í gegnum klám á netinu til að verða átakanlega var við þessa staðreynd, því karlkyns klámmyndaleikarar eru augljóslega ekki valdir í hlutverkin til að kveikja í konum. Leit eftir kynferðislega örvandi efni á netinu getur verið eins og að leika sér í parís á jarðsprengjusvæði, því með einum smelli er óvært hægt að fara af síðu sem kveikir lostann yfir á síðu sem slekkur hann svo rækilega að maður verður nánast afhuga öllu því sem holdlegt er í marga daga á eftir.
Þetta hefur samt sem betur fer allt verið að breytast, konur eru í auknum mæli farnar að framleiða erótík og klám fyrir konur, þótt það sé á jaðrinum. Og efnið er í sjálfu sér ekki svo ólíkt, áherslurnar eru bara aðrar. Sumt er lélegt eins og gengur, annað gott og skemmtilegt. Nýjasta framtakið hér heima í þessa átt er samantekt á kynórum íslenskra kvenna á bók.
Bókin hefur enn ekki verið skrifuð en samt eru nokkrir nú þegar byrjaðir að gagnrýna hana fyrir að verða of klámvædd, of markaðsvædd, eða ekki nógu raunsönn. Allt undir yfirskini femínisma, sem verður ítrekað fyrir því að verða skálkaskjól fyrir útrás á andúð á kapítalisma. Kannski verður þessi bók ömurleg og þá þurfum við heldur ekki að hafa áhyggjur af því að hún rati víða. Kannski verður þvælt eintak af henni í hverri náttborðsskúffu. Eigum við ekki bara að bíða og sjá áður en við fordæmum? 

Engin ummæli: