miðvikudagur, maí 16, 2012

Reynlusaga reiðhjólakappa


Aldrei hélt ég að ég yrði þessi týpa sem myndi hjóla 22 kílómetra daglega í og úr vinnu, jafnt í snjó og hálku sem í sól og blíðu, eða roki og rigningu. En reyndar er svo margt sem ég hélt aldrei að ég myndi gera eða gæti, áður en annað kom í ljós.

Heimili mitt hefur verið bíllaust síðan í september. Það kom ekki til af góðu, Volvo gamli var ekki ónýtur en það var ljóst að setja þyrfti talsverðan pening í að gera hann skoðunarhæfan. Að viðbættum bensínkostnaði varð mér ljóst að þetta voru peningar sem mig langaði að eiga í annað. Bíllinn var því seldur og tilrauninHjólað í vinnuna hófst. Ég hafði verið úrtölumanneskjan á heimilinu í þessum efnum, sagðist svo sem vel geta hjólað, ef vinnustaðurinn væri nær heimilinu eða ef hvort tveggja væri í Kaupmannahöfn. Á meðan hvorugt væri raunin kom ekki til greina að leggja bílnum. Það má því segja að orðið hafi mikil hugarfarsbreyting á stuttum tíma.

Hjólaferill minn hefur að vísu ekki verið óslitinn í vetur. Síðan í janúar hef ég haft aðgengi að lánsbíl sem getur verið freistandi að nota. Ég nenni ekki alltaf að hjóla frekar en ég nennti alltaf í ræktina áður. Stundum tek ég strætó og stundum fæ ég lánaðan bíl, en oftast reyni ég að hjóla og líður alltaf betur eftir á. Auðvitað fylgja því ókostir að reiða sig á hjól sem samgöngutæki, en fyrir mitt leyti eru kostirnir mun fleiri. Í fyrsta lagi er það auðvitað sparnaðurinn. Það sem af er ári hef ég eytt 20.000 kr í eldsneyti, en á sama tímabili í fyrra eyddi ég 89.000 kr, auk annars kostnaðar við að eiga bíl.

Viðbótarsparnaður felst í því að ég er hætt að borga fyrir líkamsræktarkort, því leiðin til vinnu er það löng að hjólreiðarnar eru mín hreyfing. Rúm klukkustund á dag úti í fersku lofti og ekki veitir af enda eyðir fólk á Norðurhveli um 90% ævinnar innanhúss. Þegar ég hjóla heim úr vinnunni og fylli lungun af súrefni verður mér sérstaklega hugsað til þeirra sem keyra í síðdegsitraffíkinni í ræktina til að hamast á kyrrstæðum hjólum í svitastorknum spinningsal. 

Ég hjóla frá Þingholtunum að Rauðavatni, umhverfis Öskjuhlíð, inn Fossvog og upp Elliðaárdal. Stærstan hluta leiðarinnar er ég á grænu svæði umkringd dýralífi sem gaman er að fylgjast með og á þar til gerðum hjólastígum sem borgin hefur lagt. Kinnarnar verða rjóðar, lærin styrkjast og á leiðinni heim tæmist hugurinn algjörlega af vinnutengdum hugsunum og streitu. Eftir slíkan dag sofna ég betur að kvöldi. Styttri vegalengdir hjóla ég líka og hef m.a. komist að því að það er mun minna þreytandi að hjóla á barinn í háum hælum en að ganga. Mér finnst líka gaman að hafa ástæðu til að iðka þann íslenska sið að byrja daginn á því að gá til veðurs, til að meta hvernig ég geti best klætt það af mér.

Ætlun mín er ekki að predika yfir lesendum, ég veit að hjólreiðar henta ekki öllum. En ég tel að fleiri gætu hæglega breytt um lífsstíl með þessum hætti og hvet sem flesta til að láta á það reyna að hjóla í vinnuna.

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 16. maí 2012.

Engin ummæli: