miðvikudagur, júní 13, 2012

Sól yfir Íslandi


Á sólríkum sumardögum eins og núna get ég ekki ímyndað mér að nokkurs staðar annars staðar í heiminum sé betra að vera en hér á Íslandi. Í mesta lagi jafngott. Tilhugsunin um hve margir slíkir dagar eru enn framundan fyllir mig auknum þrótti og framkvæmdagleði. Þvílík forréttindi sem það eru að fá að vera ungur í íslensku sumri. 

Einn besta sólardaginn til þessa átti ég með góðum vinum í tjaldi á lækjarbakka, þar sem sólin og fuglasöngurinn vöktu okkur með slíku offorsi að það var ekkert annað í boði en að skríða úr poka fyrir allar aldir til að ná andanum. Við leyfðum okkur að kvarta svolítið yfir þessum ósköpum og einn klykkti út með því að í ofanálag við sólina og fuglasönginn og ferska loftið væri þarna allt of mikið af háværu, drykkjarhæfu vatni sem héldi fyrir manni vöku. Þetta eru svokölluð fyrsta heims vandamál, sem vinsælt er að grínast með á eigin kostnað, vegna þess að við vitum innst inni hvað við höfum það þrátt fyrir allt gott þótt hér ríki kreppa. 

Með í tjaldbúðunum voru tvö eintök af yngstu kynslóðinni í sinni fyrstu útilegu, þ.ám. einn sem vann ótrauður að því að taka sín fyrstu skref. Við létum hann ganga úr einu fangi í annað, því á misjöfnu þrífast börnin best. Það er að segja á misjöfnu undirlagi auðvitað, því það er helst í þýfðu grasi sem íslensk börn finna misjöfnur, ef marka má nýjustu skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem leiddi í ljósi að fátækt barna er hvergi í heiminum minni en á Íslandi. Við sem höfðum slegið þarna upp tjöldum gátum því verið nokkuð örugg um að litlu tapparnir tveir sem léku sér við okkur hafa átt eins gæfuríkt fyrsta æviár og kostur er.

Í ljósi þessarar sólarsælu allrar sem á undan hafði gengið kom það alveg sérstaklega flatt upp á mig um kvöldið, þegar ég settist fyrir framan sjónvarpið til að fylgjast með umræðuþætti forsetaframbjóðenda, að hlusta enn og aftur á sitjandi forseta byggja málflutning sinn fyrst og síðast á því að mikil óvissa vofði yfir okkur. Hann kannaðist ekki við að vera að ala á ótta þrátt fyrir að hafa nefnt óvissu 20 sinnum í tveimur viðtölum, en allt þetta tal um að hann einn sé fær um að „bjarga þjóðinni“ gefur samt til kynna að það þurfi að bægja frá okkur mikilli ógn. 

Ólafur Ragnar sagði líka í nefndum þætti að hann vildi skapa ungu fólki tækifæri og tryggja að það vildi búa hér áfram. Þær stundir hafa vissulega komið að mig langar alls ekki að búa hér. Það gerist fyrst og fremst þegar mér ofbýður sá bölmóður og neikvæðni sem hér virðist stundum allt ætla að drepa, að ástæðulausu. Vandamálin sem við glímum við eru fyrsta heims vandamál og þótt óvíst sé hver niðurstaðan verður í ýmsum málum þá getum við og munum leysa úr þeim í sameiningu, á lýðræðislegan hátt. 

Við þurfum ekki að treysta á einn mann til að „bjarga okkur“, við höfum alltaf getað bjargað okkur sjálf og forseti sem setið hefur í 16 ár myndi best veita ungu fólki tækifæri með því að treysta því til að taka við.

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 13. júní 2012.

Engin ummæli: