Sjálfsbjargarviðleitnin þá og nú
Það er sterk upplifun að standa á Hornbjargi á heiðskírum degi þar sem útsýni er um allar Hornstrandir að Tröllaskaga og yfir fjallaskörðin til Jökulfjarða, með óendanlegan blámann framundan í Grænlandsátt. Á þessum tíma árs iða Hornstrandir og Jökulfirðir af lífi. Gönguhópur sem þar var á ferð um miðjan júlí hreppti ótrúlegt veður og fékk því að njóta friðlandsins þegar það er líkast paradís á jörðu.
En þessir fáu sólardagar eru blekkjandi og hugurinn hvarflaði óhjákvæmilega að því hvernig lífið hefur verið þarna í myrkri og einangrun bróðurhluta ársins. „Hornstrandir hafa löngum verið alkunnar að því, að þar væri einhver hinn kaldranalegasti og óvistlegasti útkjálki á landinu, enda er eigi ofsögum af því sagt hve harðýðgisleg náttúran er á Ströndum.“ Svo hljóðaði frásögn Þorvaldar Thoroddsen sem birtist í vikuritinu Suðra eftir ferð um svæðið í ágúst 1886 og var samhljóma ferðalýsingu Eggerts Ólafssonar þaðan 150 árum fyrr.
Það var því kannski ekki nema von að einn í gönguhópnum velti því fyrir sér efst á Kálfatindum hvers vegna fólk hefði ákveðið að búa á þessum útkjálka, sem þótti meira að segja vera slíkur fyrir 260 árum þegar Ísland allt var einn allsherjar útkjálki. Það er víst ekki alltaf svo að fólk hafi mikið val um búsetu og jarðnæði var af skornum skammti. Fólk sem rífur sig upp og heldur til móts við óvissuna gerir það oftast nær vegna þess að það eygir von um betri kjör, þótt fjarlæg sé. Þegar tækifærin buðust annars staðar lagðist Hornstrandabyggðin af.
Þetta minni kemur fyrir í búsetusögu Íslands allt frá fyrsta landnámi. Fólk hefur flust til landsins eða frá því sem og á milli landshluta eftir því sem kjörin bjóðast og það sama á við um aðra kima heimsins. Fyrir rúmri öld flúði stríður straumur Evrópubúa bág kjör og freistaði gæfunnar í Ameríku. Á undanförnum árum hefur straumurinn verið þungur frá Norður-Afríku til Evrópu. Talið er að þúsundir manna drukkni árlega á hafi úti við að reyna að komast yfir. Sumir flýja vegna þess að þeim er beinlínis ógnað og skilgreinast þá sem flóttamenn samkvæmt alþjóðasamningum. Aðrir búa við svo bág kjör að þeir eru tilbúnir að fórna öllu í von um að öðlast betra líf annars staðar. Oft er erfitt að sannreyna í hvorn flokkinn menn falla, en í dag teljast búferlaflutningar þess síðarnefnda ólöglegir.
Glæpurinn felst í því að leggja í lífshættulegt ferðalag án þess að vera með réttan stimpil í tilteknum skjölum. Sumum tekst að komast með þessum hætti alla leið norður til Íslands, þótt þeir hafi jafnvel aldrei heyrt um landið áður. Þeim fer fjölgandi sem hingað hrekjast og ekki skal gera lítið úr þeim vanda sem því fylgir, við honum er engin einföld lausn. En það skortir eitthvað upp á mannúðina þegar Íslendingar afgreiða þetta fólk með einu pennastriki sem hyski og glæpamenn. Fólk sem hefur gerst sekt um fátt annað en að vera drifið áfram af þeim sammannlega eiginleika sem sjálfsbjargarviðleitnin er.
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 8. ágúst 2012.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli