fimmtudagur, ágúst 23, 2012


Alveg ofboðslega frægur


Tryllingur greip um sig í Noregi í sumar þegar kanadíska ungstirnið Justin Bieber hélt þar tónleika. Miðborg Óslóar iðaði af æstum unglingsstelpum sem vonuðust til að sjá strákinn og sjálfur kom hann fram í fjölmiðlum til að biðja norska aðdáendur sína um að fara varlega, eftir að einhverjar þeirra höfðu nánast kastað sér fyrir bílinn hans. Þessi hömlulausa aðdáun er heimsfaraldur sem hlotið hefur nafn og kallast Bieber-hitinn (e. Bieber fever).

Justin Bieber er auðvitað ekki sá fyrsti sem á fótum sínum fjör að launa fyrir æstum aðdáendum. Frægar eru t.d. myndirnar frá 7. áratugnum af ungum konum grátandi og fallandi í yfirlið í miðju Bítlaæðinu sem svo var nefnt (e. Beatlemania).

120 árum fyrr setti þýska ljóðskáldið Heinrich Heine fram í bréfi hugtakið „Lisztomania“, um dýrkunina á píanóleikaranum Franz Liszt. Sagt er að aðdáendur Liszt um miðja 19. öld hafi komist í mikla geðshræringu við að hlusta á hann spila og verið aðgangsharðir á tónleikum, flykkst að honum með látum og reynt að slíta af honum hárlokk eða hanska.

Rétt er líka að halda því til haga að karlar hafa ekki síður tilhneigingu til að missa sjónar á sjálfsvirðingunni þegar stjörnudýrkunin ber þá ofurliði. Sem dæmi varð tengdamóðir mín nánast undir í slagsmálum tveggja miðaldra karla þegar Zinedine Zidane kastaði bolnum sínum beint fyrir framan fæturna á henni á úrslitaleik Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu 1998. Báðir vildu þeir ólmir klæðast svitablautri treyju kappans utan yfir jakkafötin sín.

Áður fékk þessi tilhneiging líka útrás í dýrkun á konungbornum og guðum af ýmsum gerðum, en bent hefur verið að Hollywood-stjörnur og íþróttahetjur fylli í skarð þeirra að einhverju leyti í dag. Stjörnurnar eru guðum líkar, áferðarfallegri og hæfileikaríkari en venjulegt fólk og búa við ríkidæmi og glamúr á við kóngafólk. Stjörnudýrkun hefur því lengi fylgt manninum og vilja sumir meina að hún sé hluti af mannlegu eðli þótt birtingarmyndin geti orðið brengluð.

Í nútímasálfræði er stjörnudýrkun skilgreint hugtak því tilfellið er að þótt hún sé yfirleitt saklaus og skemmtileg dægradvöl þá getur hún orðið sjúkleg. Þetta er ágætt að hafa í huga núna, þegar vart er þverfótað á Íslandi fyrir heimsfrægum stjörnum. Við stærum okkur gjarnan af því að hér fái stjörnurnar að vera í friði og sú virðist líka raunin ef þær reyna ekki þeim mun meira að vekja á sér athygli. Vonandi helst það þannig.

Sjálf taldi ég mig yfir stjörnudýrkun hafna, enda vönd að virðingu minni. Það er að segja þangað til Russell Crowe kom til landsins. Þá rifjaðist allt í einu upp fyrir mér að ég var lengi heitur aðdáandi hans og þótt nokkur ár séu liðin risti það greinilega dýpra en ég hélt. Þegar ég var farin að hjóla löturhægt um Fossvogsdalinn og rýna stíft í andlit allra sem ég mætti í von um að það væri Russell Crowe að koma „heim“ úr ræktinni, þá skildi ég að það væri bara stigsmunur á mér og Bieber-heitu smástelpunum. Það er ágætt að karlinn fór af landi brott áður en ég varð mér til skammar.

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 22. ágúst 2012.

Engin ummæli: