Óttinn við konur
Ef konur klæddu sig siðsamlega myndi enginn snerta þær. Þær sem klæða sig eins og druslur eru að biðja um það. Hljómar kunnuglega? Þannig var svar egypskra stráka, sem fréttaritari BBC ræddi við um tíðar árásir á kvenkyns landa þeirra.
Á „frelsistorginu“ í Kaíró er ítrekað brotið á frelsi kvenna. Um stund töldu þær sig jafngilda körlum, þegar þær stóðu þeim við hlið í byltingunni. Sú von dofnaði þegar ráðist var á bandaríska fréttamanninn Löru Logan, í miðjum gleðilátum yfir afsögn Mubaraks. Árásin var því miður ekki einsdæmi heldur varpaði hún aðeins ljósi á napran veruleika. Fleiri dæmi eru þess að æstur múgur karla ráðist á konur á götum úti í Egyptalandi, konur hvers nafn og andlit birtast hvergi enda hylja þær flestar ásjónu sína í samræmi við siðvenjur.
Ólíkt því sem margir halda skiptir nefnilega engu máli hvernig konurnar klæða sig. Íhaldssamur fatnaður er engin vörn gegn kynferðisofbeldi. Í rannsókninni 2008 kom fram að 60% þátttakenda, af báðum kynjum, töldu að léttklæddar konur væru líklegri til að verða fyrir nauðgun. Sömu viðhorf hafa verið þrautseig á Íslandi, en Druslugangan hefur boðið þeim birginn síðustu tvö ár. Rótin að kynferðisofbeldi liggur í öðru en klæðaburði. Engar rannsóknir hafa sýnt fram á að samband sé milli klæðnaðar kvenna og kynferðisofbeldis. Engin skilgreining liggur heldur fyrir á því hvað teljist „druslulegt“ enda er smekkurinn misjafn, ekki aðeins milli landa heldur líka í huga einstaklingsins. Að ætlast til að konur klæði sig þannig að þær verði ekki fyrir nauðgun er því krafa sem konum er ómögulegt að uppfylla, þegar nauðgarinn hefur sjálfur skilgreiningarvaldið.
Í Egyptalandi er reynslan sú að konur sem klæðast niqab og sýna þannig ekkert nema augun verða engu síður en aðrar fyrir árásum. Strákarnir sem BBC ræddi við í Kaíró áttu auðvelt með að útskýra þetta. Konur sem klæðast aðsniðnum niqab, frekar en hólkvíðum, eru nefnilega að biðja um það.
Með því að áreita þær kynferðislega er verið að refsa konunum fyrir að hafa sjálfstæðan vilja. Árásirnar beinast gegn kvenleikanum, í hvaða mynd sem hann birtist.
Með því að áreita þær kynferðislega er verið að refsa konunum fyrir að hafa sjálfstæðan vilja. Árásirnar beinast gegn kvenleikanum, í hvaða mynd sem hann birtist.
„Þar sem feðraveldið ríkir er ekki samþykkt að konur skáki körlum,“ hefur BBC eftir prófessornum Said Sadek. Árásir karla á konur í Egyptalandi eru birtingarmynd ótta feðraveldisins gegn uppgangi kvenna. Sama tilhneiging hefur birst okkur í fréttum víðar að. Í Íran hafa stjórnvöld ákveðið að loka háskólum landsins að mestu fyrir konum, því þær eru orðnar meirihluti nemenda og standa sig betur en karlar. Í Bandaríkjunum heyja repúblikanar „stríð gegn konum“ og reyna að svipta þær lagalegum ráðum yfir eigin líkama.
Konurnar í þessum löndum eiga það sameiginlegt að hafa gert sig sekar um að láta í auknum mæli að sér kveða á opinberum vettvangi, utan veggja heimilisins, á eigin forsendum. Og feðraveldið er lafhrætt við þær.
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 5. september 2012
Engin ummæli:
Skrifa ummæli