10 ára bloggafmæli
Þennan dag fyrir 10 árum, 25. september 2002, ritaði ég fyrstu bloggfærsluna á þessa síðu. Slóðin var valin af handahófi og titillinn í flýti (innblásinn af senu sem mér fannst fyndin í kvikmyndinni A Bug's Life). Eftir á að hyggja er hann nokkuð viðeigandi, því þegar ég renni yfir fyrstu færslurnar sem hér voru skrifaðar má alveg segja að hamskipti Unu Sighvatsdóttur hafi átt sér stað. Ég hef, sem betur fer, breyst talsvert síðan ég var 17 ára sem birtist m.a. í því að ég er orðin aðeins varfærnari í skrifum og vali á því hvað sé birtingarhæft!Að öðru leyti hef ég þó ekki breyst, því mér finnst ennþá óskaplega gaman að skrifa. Þessi bloggsíða var stofnuð við upphaf mikillar bloggbylgju sem síðar hefur þróast yfir á aðra samfélagsmiðla. (Ég tek ekki lengur ítarlegan bloggrúnt 2-3 á dag, en hangi í staðinn á Facebook). Hvötin hjá mér var þó ekki bara tíðarandinn þá heldur líka ákveðin tjáningarþörf sem enn er til staðar. Þess vegna kannski hefur þessi síða orðið langlífari en margar aðrar sem stofnað var til á sama tíma.
Hamskipti Unu Sighvatsdóttur hafa átt sínar hæðir og lægðir. Hér hafa alls verið skrifaðar 732 færslur og lengi vel var lesturinn á síðunni mikill og sköpuðust oft líflegar umræður í athugasemdakerfinu. Það varð því mikil sorg hjá mér þegar uppgötvaðist, fyrir 1-2 árum, að Haloscan athugasemdakerfið var hætt og þar með margra ára safn af umræðum og athugasemdum glatað.
Undanfarin misseri hefur þessi síða auðvitað ekki verið blogg nema að nafninu til. Ég hef notað þetta sem n.k. skjalasafn fyrir pistlana mína í Mogganum. Eftir að ég byrjaði að skrifa að atvinnu missti ég smám saman bloggþróttinn, ekki síst með tilkomu pistla- og Víkverjaskrifa. Ég hef þó kosið að halda lífi í síðunni með þessum hætti og útiloka ekki að ég muni taka þráðinn hér upp aftur einhvern daginn.
Fyrir nokkrum árum bloggaði ég um tvíklofna afstöðu mína til svona upplýsingasöfnunar eins og verður á bloggsíðu til margra ára. Nú hefur Facebook bæst við, auk gagnasafns Morgunblaðsins. Verði afkomendur mínir áhugasamir um mína hagi munu þeir geta orðið margs vísari um skoðanir mínar, vini, áhugamál og ómerkilegustu athafnir. Ég er ekki ómeðvituð um að komi vissar kringumstæður upp væri hægt að nota ýmsar þær upplýsingar, sem ég hef sjálfviljug sett fram, til ills.
Mín almenna nálgun hefur samt alltaf verið sú að ég sé ekki að setja neitt fram sem ég þurfi að skammast mín fyrir eða fara leynt með. Kannski breytist það mat með tímanum og kannski mun ég við tækifæri fara í gegnum gagnasafnið og hreinsa eitthvað út frá unglingsárum mínum hér! Ég held samt ekki, ég stend með sjálfri mér, þá og nú.
Þetta er annars fyrsta eiginlega bloggfærslan mín hér í langan tíma og er skrifuð vegna þess að mér hefur alltaf þótt svolítið vænt um þessa síðu mína og finnst hún eiga skilið að ég minnist hennar á 10 ára afmælinu. Og um leið þakka ég auðvitað öllum þeim sem fylgdust með mér á árum áður, og slysast kannski hingað inn, fyrir lesturinn!
Beygingarmynd dagsins: Drátthagastrar
4 ummæli:
til hamingju með bloggafmælið!
Fannst viðeigandi að skilja eftir athugasemd við bloggið en ekki að segja eitthvað á facebook linknum sem þú settir inn.
Takk Brynhildur mín :) Einkar viðeigandi, þar sem öll gömlu kommentin duttu út er skemmtilegt að fá eitt til tilbreytingar.
Takk fyrir samveruna á liðnum áratug. Þú ert uppáhalds bloggarinn minn og einkar drátthög :-)
Takk sömuleiðis Ásdís mín ;)
Skrifa ummæli