föstudagur, desember 21, 2012


Síðasta innsýn í heim undirritaðrar birtist hér í september í pistli sem sagði frá þeirri ákvörðun að setjast aftur á skólabekk eftir fimm ára hlé. Svona rétt til að fullnýta þær stundir sólarhringsins sem ekki eru lagðar undir vinnu. Pistillinn einkenndist af hvoru tveggja í senn: Spenningi fyrir að prófa eitthvað nýtt (eða rifja upp gamla takta kannski frekar) og dassi af sjálfsblekkingar-peppi um hversu stórkostlega skemmtilegt það sé nú að vera í skóla. Nú rúmum þremur mánuðum síðar er mér ljúft og skylt að greina frá því sem ég hef lært.

Það fyrsta sem ég lærði, sama dag og ég byrjaði í skólanum, var að nú eru til pennar með bleki sem hægt er að stroka út. Þetta hafði ég aldrei séð áður og eftir á að hyggja eru þessir pennar sennilega það sem kom mest á óvart á þessari önn, því þetta er í alvörunni töfrum líkast. Löngum stundum sat ég yfir námsbókunum og krotaði eitthvað með bleki til þess eins að stroka það síðan út aftur í andakt. 

Annað sem ég lærði er að það getur tekið svolítið á að vera settur inn í lokað herbergi með hópi af ókunnugu fólki og þurfa að hlusta á skoðanir þess í 3 klukkutíma. (Ekki endilega vegna þess að þær séu svona vitlausar samt). Í grunnnáminu í háskólanum hafði fólk alls ekki svona miklar skoðanir, og á netinu er alltaf hægt að loka athugasemdakerfinu.

Ein lexía sem tók svolítinn tíma að síast inn er sú að það gengur nokkuð freklega á orkubúskap líkamans að vera í 50% námi ofan á 100% vinnu. Eftir nokkrar vikur með dögum sem hófust í skólanum klukkan 9 og enduðu í vinnunni klukkan 24, eða öfugt (hádegis- og kvöldmatur snæddur við skrifborðið) þá komst ég að því að ég er alls engin 150% manneskja. Ég er ekki einu sinni A-manneskja.

Að öllu gríni slepptu lærði ég þó auðvitað heilmargt, enda komst ég þrátt fyrir allt yfir að lesa einhver hundruð blaðsíðna, þótt mér fyndist ég stöðugt vera að dragast aftur úr námsáætluninni. Ég komst líka að því, sem mig grunaði reyndar fyrir, að eftir nokkurra ára þátttöku í samfélaginu sem fullorðinn einstaklingur nálgast maður námsefni öðruvísi og á hægara með að tengja milli teoríu og praxís. En mér lærðist líka að þótt námsbækurnar væru nógu áhugaverðar til að lesa þær uppi í rúmi á kvöldin, þá fannst mér hreint ekki nógu áhugavert að þurfa svo að leggja þær á minnið til að láta einhvern annan prófa mig upp úr þeim.

Mér lærðist að þótt ég eigi margar nostalgískar minningar um líf námsmannsins þá hef ég sennilega rómantíserað úr hófi fram þá hugmynd að vera eilífðarstúdent – nema þá sjálflærður sé.

Engin ummæli: