föstudagur, september 14, 2012

Heimur Unu - Aftur í skóla

Í síðustu viku settist ég á skólabekk að nýju eftir 5 ára hlé. Á meðan á sleitulausum námsferli stóð frá leikskóla til BA-prófs heyrði ég stundum að það væri óskynsamlegt að taka sér hlé frá námi af því þá væri svo erfitt að byrja aftur. Ég gaf frekar lítið fyrir þetta enda taldi ég mig svo mikinn akademíker í eðli mínu. Skólabekkurinn væri mitt náttúrlega umhverfi. Það fór því um mig fiðringur af tilhlökkun fyrir haustinu þegar ég skráði mig í Háskóla Íslands í maí.

Haustin eru nefnilega tími skólanna, allar auglýsingar og fréttir eru uppfullar af áminningum um skólastarf í öllum myndum. Verandi hvorki nemandi né foreldri skólabarns hef ég verið svolítið utanveltu á haustin síðustu ár. Lönguninni til að kaupa fallega penna, skrifa merkimiða á möppur og strika nýja þekkingu út af leslista vikunnar, hefur ekki verið fullnægt.

Ég hef reynt að klóra í kláðablettinn með því að fara á námskeið. Haustið 2011 fór ég á samnorrænt námskeið fyrir blaðamenn í Danmörku. Haustið 2010 fór ég á ljósmyndanámskeið. Haustið 2009 fór ég á köfunarnámskeið. Haustið 2008 sat ég hraðnámskeið í efnahagshruni smáríkja, ásamt reyndar allri þjóðinni. Haustið 2012 ákvað ég að ganga lengra og skrá mig aftur í Háskóla Íslands. Sem fyrr segir vakti tilhugsunin hjá mér spennu í vor, en þegar leið á sumarið fóru að renna á mig tvær grímur. 

Skyndilega rifjaðist nefnilega upp fyrir mér fylgifiskur þess að vera í skóla: Hið stöðuga samviskubit. Vinnudagur háskólanemans er aldrei búinn í reynd. Ef maður fer í bíó, horfir á sjónvarpið, situr lengi við kvöldverðarborðið, les bók sér til skemmtunar eða sefur út á sunnudegi, er það aldrei gert af heilum hug því undir niðri er þessi nagandi tilfinning að maður ætti að vera að gera eitthvað annað. Læra.

Ég áttaði mig á því að ég væri að gefa frá mér allan frítíma minn, sjálfviljug og óumbeðin, með því að velja að eyða öllum stundum utan vinnunnar í að læra eða vera með samviskubit yfir að vera ekki að læra. Þessi tæpu 5 ár sem ég hef eingöngu verið á vinnumarkaði hefur mér lærst að meta frítíma minn mjög mikils.

Ég var því farin að kvíða svolítið fyrir fyrsta skóladeginum. En það bráði fljótt af mér. Jú, í desember mun ég án efa sakna þess að geta legið áhyggjulaus uppi í sófa með nýjustu afurðir jólabókaflóðsins, en veturinn leggst samt vel í mig. Það er gaman í skóla.

Birtist sem föstudagspistill í Daglegu lífi Morgunblaðsins 14. september 2012. 

Engin ummæli: