Ég heiti Una. Það er einfalt og þægilegt nafn, en þó ekki einfaldara en svo að útlendingar hvá yfirleitt, þar til ég kynni það á spænskan máta. Úna chica.
Þótt hann hafi valið það virðist Una líka vera óþarflega einfalt nafn í huga pabba míns, því hann er iðinn við að snúa út úr og kalla mig t.d. Unfríði Unfríðardóttur frá Unfríðarstöðum í Unfríðarstaðasveit. Hann lætur ekki staðar numið þar því mamma kallast aldrei sínu rétta nafni, Ólína, í hans meðförum heldur ýmist Geirmundína, Þrýstiloftmunda eða Jósafat.
Við systkinin heitum öll gömlum, íslenskum nöfnum en þegar betur er að gáð eru þau þó ekki sjálfsagðari en hvaða önnur samsetning af bókstöfum sem er. Karlmannsnafnið Sturlu má t.d. rekja langt aftur en þegar Sturla bróðir minn var lítill stemmdi það illa við máltilfinningu margra jafnaldra hans, enda er það í reynd kvenkynsorð. Hann var því oft kallaður Sturli. Nafn systur minnar Brynhildar hefur mér alltaf þótt fallegt en þegar ég heyrði í fyrsta sinn nafnið Brimhildur fannst mér það fáránlegt, þótt það sé nánast alveg eins.
Maðurinn minn heitir Önundur. Það er landnámsnafn sem heill fjörður er nefndur eftir en ótrúlega margir virðast þó vera að heyra það í fyrsta skipti. Mér er minnisstæð stelpan á Pizza Hut sem þurfti að heyra það endurtekið fjórum sinnum áður en við fengum pitsuna okkar (Ööön....?) Flestir kalla hann Ögmund og held ég að eina lausnin fyrir Önund sé að ná því að verða frægari en Ögmundur Jónasson til að leikar snúist.
Um leið og maður venst nöfnum hætta þau nefnilega að vera fáránleg. Ég hef heyrt af leikskólabörnum sem springa úr hlátri yfir nafninu Jónatan en eiga þrjá vini sem heita Tristan og finnst ekkert eðlilegra.
Sjálf hef ég hneykslast á innsoginu yfir því hvað fólk sé að gera börnunum sínum með ákveðnum nafngiftum, þar til ég fattaði að það kemur mér ekki nokkurn skapaðan hlut við hvað annað fólk heitir. Nöfn eru tilbúningur okkar eins og öll önnur orð og hafa enga merkingu í sjálfu sér. Það er valkvætt að vera fordómafullur og það er vond menning sem segir okkur að það sé eðlilegt að hæðast að fólki fyrir það eitt að heita nafni sem hljómar framandi við fyrstu viðkynningu. Eða leyfist mér að hljóma eins og bandarísk unglingamynd og vitna í Shakespeare:
Hvað felst í nafni? Það sem við köllum rós ilma myndi jafn vel undir öðru heiti.
Birtist í Daglegu lífi Morgunblaðsins föstudaginn 1. febrúar 2013
Engin ummæli:
Skrifa ummæli