föstudagur, apríl 12, 2013

Sumir segja að tvær þjóðir búi í þessu landi, landsbyggðapakkið og miðbæjarrotturnar. Í einni af ótal „rök“ræðum sem ég las um yfirburði sveitar yfir borg eða öfugt sá ég ummæli sem stungu mig svolítið og sátu í mér. Þar var á ferð kona ein sem sagði með öllu óskiljanlegt að fólk vildi búa í miðborg Reykjavíkur því þar væri ekkert nema mengun og skrílslæti og því óábyrgt eða beinlínis skaðlegt að búa þar með börn. Sjálf fyllti hún hóp þeirra sem gætu alls ekki hugsað sér að búa neins staðar annars staðar en einmitt þar sem þau fæddust.

Ég hef sjálf ekki búið svo mjög víða, en þó í einum af nágrannabæjum Reykjavíkur, í litlu þorpi á Norðurlandi sem og í 3,6 milljóna borg í annarri heimsálfu, auk þess sem foreldrar mínir búa í sveit á Suðurlandi þar sem ég dvel gjarnan. Núna bý ég í hjarta miðborgarinnar, á hinu sögulega Skólavörðuholti.

Á öllum þessum stöðum hefur mér liðið vel og fannst ég á réttum stað á réttum tíma í lífi mínu hverju sinni. En þar sem þessari ágætu konu finnst óskiljanlegt að heilbrigð manneskja vilji búa þar sem ég bý, þá finnst mér ekki nema sjálfsagt að útskýra það í örfáum orðum. Þannig er nefnilega að eins mikið og ég kann að meta einveru, sem ég sæki m.a. uppi á hálendinu á hverju sumri, þá elska ég líka mannlífið. Fólk er skemmtilegt og þegar ég fer t.d. á veitingastað vil ég hafa það í kringum mig og virða það fyrir mér. Það geri ég líka oft því í götunni minni og næstu götum er fjöldi veitingastaða.

Við götuna mína eru líka tvö listasöfn og einstakur höggmyndagarður sem er opinn allan sólarhringinn. Þar sit ég stundum á heitum sumardögum, les í bók og fylgist með leikskólabörnum í vettvangsferð og ferðamönnum í skoðunarferð. Í götunni minni er nefnilega bæði gistiheimili og dagheimili og tveir leikskólar í næstu götum. Í götunni minni er líka fiskbúð, þar sem oft er mikið kjaftað, við enda hennar er bakarí og tvær kjörbúðir í næstu götum. Alla þessa þjónustu get ég sótt gangandi á innan við 5 mínútum. 

Gatan mín er friðsæl og örugg, þar er einstefna með 30 km hraða þannig að bílaumferð er bæði lítil og hæg. Helstu umhverfishljóðin í götunni minni stafa frá kirkjuklukkum og börnum að leik. Gatan mín er líka gróin, þar eru allt að 100 ára gömul hús og jafnvel enn eldri tré með laufblöðum á stærð við barnshöfuð. Gatan mín í miðborg Reykjavíkur er yndisleg og þar, eins og svo víða, er frábært að búa.

Birtist sem pistill í Daglegu lífi Morgunlaðsins föstudainn 12. apríl 2013.

Engin ummæli: