Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að ég barði hann ekkert í æsku, ég hristi hann bara svolítið til. Þegar við vorum yngri var Jón alltaf öðruvísi en allir aðrir. Hann klæddist öðruvísi, hann talaði öðruvísi og hann hegðaði sér öðruvísi. [...] Hann var nörd í augum þeirra sem voru ekki á sömu línu og hann. Þess vegna varð hann stundum fyrir barðinu á þeim. Í dag er Jón í raun alveg eins og hann var.“
Þarna er engum meðal-Jóni lýst, heldur Jóni Gnarr, fráfarandi borgarstjóra Reykjavíkur. Gamall skólafélagi Jóns tók svona til orða í vikublaðinu Fókus árið 1998.
Jón Gnarr hefur síðan haldið sama hætti og verið öðruvísi, líka sem borgarstjóri. Hann klæðir sig öðruvísi (bleik jakkaföt, anarkistalopapeysa, upphlutur), hann hegðar sér öðruvísi (viðurkennir t.d. þegar hann veit ekki hluti, framselur völd sín frekar en að reyna að auka þau) og hann talar öðruvísi („Ég er geimvera“). Jón Gnarr passar ekki í neitt fyrirframgefið skapalón samfélagsins eða stereótýpísk box sem sumum finnst svo þægilegt að troða öllum í.
Mig langar til að nýta tækifærið og þakka Jóni fyrir það, nú þegar ljóst er að að hann ætlar að hætta sem borgarstjóri, þrátt fyrir að standa uppi sem sigurvegari kjörtímabilsins. Það er frábær árangur að hafa leitt nýtt stjórnamálaafl sem mældist um síðustu mánaða
mót það stærsta í borginni, þrátt fyrir að andstæðingar hans hafi frá fyrsta degi reynt að telja sjálfum sér trú um fram að borgarbúar séu yfir sig óánægðir með Jón.
Ég ætla að leyfa mér að vitna í önnur ummæli um Jón Gnarr, sem birtust í grein eftir Lilju Magnúsdóttur kennara í Fréttablaðinu í gær. Hún talar um að einelti sé hluti af þeirri trú að það megi vera andstyggilegur við þá sem eru „öðruvísi“ og segir:
„Jón Gnarr hefur lagt mikið til íslensks samfélags með því að vera „öðruvísi“. Hann er ekki stúdent, hann er „brottfall“, hann er leikari með enga menntun í því fagi, klæðist bleikum kvenmannsfötum í Hinsegin göngunni og hann er rauðhærður og með gleraugu. Hann er allt sem hefur þótt eðlilegt að leggja í einelti nema: hann er borgarstjóri Reykjavíkur.“
Ennþá verður Jón Gnarr fyrir barðinu á þeim sem þola illa hvað hann er samkvæmur sjálfur sér í því að vera öðruvísi. Alveg eins og á skólalóðinni í gamla daga reyna þeir stöðugt að berja á honum eða „hrista hann svolítið til“, en án árangurs. Jón Gnarr hét því í framboði að gera Reykjavík skemmtilegri og fyrir mitt leyti tókst honum það. En sem borgarstjóri hafði Jón áhrif langt út fyrir stjórnmálin. Það er hollt fyrir samfélagið að þurfa að viðurkenna tilvistarrétt þess sem er öðruvísi. Sérstaklega fyrir þá sem eru vanir því að halda um stjórnartaumana og fara sínu fram. Ég vona að áhrifa Jóns gæti áfram, því þau eru af hinu góða.
Takk, Jón.
Birtist sem pistill í Daglegu lífi Morgunblaðsins föstudaginn 1. nóvember 2013.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli