Sambýlismaður minn er nýbyrjaður í kór svo nú er stöðugt sungið á mínu heimili. Það er af hinu góða því söngur bætir sálarlífið og lyftir mannsandanum, sem ekki veitir af í svartasta skammdeginu.
Sjálfri hefur mér alltaf þótt gaman að syngja, þótt listagyðjan hafi ekki verið raddböndum mínum hliðholl. Takmarkað raddsvið bæti ég upp með því að vera hálfgerður límheili á ljóð og með ágæta tónheyrn (ég er algjör meistari í brengluðu lagaþrautinni í Útsvarinu, þó ég segi sjálf frá). Á meðan kórsöngvari heimilisins rýnir í nótnablöðin syng ég því, kannski falskt, en allavega blaðlaust og beint frá hjartanu (meistaralega jafnvel) með flestum lögum á skránni svo hann geti æft sig í að para bassann við laglínuna.
Eðli málsins samkvæmt eru jólalög eitt helsta viðfangsefnið á þessum tíma árs. Það kemur sér vel því ég er líka algjör sálmameistari, þó ég segi sjálf frá. Ég elska sálma. Þegar þetta er skrifað er ég að hlusta á Það aldin út er sprungið í 10. sinn í röð. Á aðventunni er sálmadýrkun mín taumlaus. Sumum finnst það ríma illa saman við þá staðreynd að ég trúi ekki á guð, en sálmar eru bara svo fallegir. Guðstrú getur líka verið falleg, jafnvel þótt maður finni hana ekki innra með sjálfum sér. Á þessum tíma er ágætt að velta fyrir sér boðskap jólaguðspjallsins, því eins og segir í texta Braga Valdimars Skúlasonar: „Þótt ýmsir hafi annan sið, er eitthvað þessa frásögn við, sem snertir mestallt mannkynið. Hún mögnuð er og þunga ber, hvað svo sem hún segir þér.“
Þessa aðventuna hef ég einmitt skrifað margar fréttir um framtakssemi einstaklinga sem láta sér annt um náungann og sýna kærleik í verki. Það eru ótrúlega margir sem taka það upp hjá sjálfum sér að gleðja þá sem eru daprir eða láta fé af hendi rakna til þeirra sem minna mega sín.
Ég trúi reyndar á það góða í manninum árið um kring, en það er eitthvað við þennan tíma ársins sem dregur fram okkar bestu hliðar og þjappar fólki sérstaklega saman. Á sumum heimilum gerist það í (meistaralegum) sálmasöng.
Birtist í Daglegu lífi Morgunblaðsins föstudaginn 20. desember 2013.
Birtist í Daglegu lífi Morgunblaðsins föstudaginn 20. desember 2013.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli