föstudagur, janúar 17, 2014

Afríka

Þessi orð eru skrifuð í Naíróbí í Kenýa. Ég er í þann mund að hefja 42 daga ferð héðan til Höfðaborgar í Suður-Afríku með viðkomu í 6 öðrum löndum, þ.e. Tansaníu, Malaví, Simbabve, Sambíu, Botsvana og Namibíu.



Fyrirvari þessarar ferðar var nokkuð stuttur – hún var bókuð í lok nóvember – en aðdragandinn var í raun talsvert lengri. Þótt enginn eiginlegur upphafspunktur sé þá hef ég samt sett hann á ákveðnum stað í tíma og rúmi, þ.e.a.s fyrir tæpum 6 árum síðan þegar ég var að ljúka 3 mánaða Asíureisu ásamt þremur af mínum bestu vinkonum. Ásdís Eir sagði þá eitthvað á þá leið að nú værum við að ljúka ævintýri lifs okkar. Þessi orð voru eflaust fyrst og fremst sögð í gleðivímu yfir góðum minningum, en virkuðu á mig eins og múrsteinn í magann. Við heimkomuna úr þessari frábæru bakpokaferð sökk ég í einhvers konar „kvartlífskrísu“. (Takk Ásdís! Sjá pistil minn frá 2011 um kvartlífskrísu)

Asíurnar mínar og tælenska sólsetrið.

Ég stóð á tímamótum þarna, hafði nýlokið háskólanámi og framtíðin var óráðin, en það eina sem ég vissi var að ég var að ég var 23 ára og alls ekki tilbúin að sætta mig við að þessi Asíureisa hefði verið „Ævintýri lífs míns“, sem nú væri búið. Eflaust meinti Ásdís þetta ekki svona bókstaflega, og auðvitað eru ævintýri afstæð. Þau eru ekki bundin við fjarlægar slóðir, sum ánægjulegustu ævintýrin gerast í garðinum heima og jafnvel má færa rök fyrir því að lífið allt sé eitt stórt ævintýri.

En ég er með svæsna ferðalagabakteríu og hef verið síðan ég man eftir mér. Hún læknast ekki með ferðalögum, heldur eflist og verður að sótt. Ég einsetti mér strax að fara aðra bakpokaferð, helst innan næstu 5 ára (ég er mjög gjörn á að gera 5 ára áætlanir um líf mitt. Samt ekki Stalínisti). Í millitíðinni hef ég þó  lært að það er alveg satt sem John Lennon sagði, lífið er það sem gerist þegar þú ert upptekin við að skipuleggja eitthvað annað.

Nokkrum mánuðum eftir Asíureisuna fastréð ég mig á Mogganum. Mig svimaði við þá skuldbindingu, en það breyttist í létti stuttu síðar þegar Ísland hrundi. Svo liðu árin 5 og ég upplifði ýmis ævintýri, heima og að heiman, en í huga mér nagaði alltaf þessi löngun að fara í aðra bakpokaferð. Fyrir rúmu ári varð mér ljóst stundinn var runnin upp.

Ég skoðaði ýmsa möguleika, bæði málaskóla og sjálfboðaliðastarf, en á endanum varð hreinræktuð bakpokaferð ofan á. Afríka og Suður-Ameríka höfðu skipst á að vera ágengastar í dagdraumum síðustu ára. Ég hef aldrei verið heltekin af heimsreisu per se, það er mér ekki kappsmál að komast til sem flestra landa á sem stystum tíma. Hinsvegar þykir mér mjög heillandi að ferðast hægt og víða innan ákveðins svæðis, eins og við gerðum í Asíu. Að fara landleiðina yfir landamæri er mjög fróðlegt, þ.e. að finna hvernig menningin, fólkið og landslagið breytist við að fara yfir einhverja línu sem oft er dregin ósýnileg í jörðu.

Helsti ókosturinn við þessa Afríkureisu finnst mér sá hversu hratt er farið yfir, en ég hugsa sem svo að þetta séu ágæt fyrstu kynni af Afríku og ég get þá séð hvert ég myndi helst vilja snúa aftur síðar. Þar sem ég er ein á ferð í þetta skiptið ákvað ég að fara hópferð. Bæði vegna þess að mér finnst fólk skemmtilegt, en líka vegna þess að mér virðist Afrika erfiðari yfirferðar en Austur- og Suðaustur-Asía. Hér eru takmarkaðari og erfiðari almenningssamgöngur. Í Asíu var lítið mál að stökkva fyrirvaralaust milli staða með næturlestum- eða rútum, en það er minna um það hér. Auðvitað er alveg hægt að ferðast á eigin spýtur milli landa Afríku, en það krefst talsvert meiri yfirlegu og skipulagningar en ég kærði mig um að leggjast í. Mér finnst samt svolítið erfið tilhugsun að ég geti ekki ráðið mér sjálf og stoppað þar sem ég vil eins lengi og ég vil.

Fararskjótinn næstu vikurnar - Harrison.

Fyrirtækið sem ég valdi að fara með, Nomad, er suður-afrískt. Mér fannst það skipta máli að það væri „100% African Owned“ eins og þau orða það sjálf. Trukkarnir hjá Nomad eru allir nefndir eftir látnum rokkstjörnum. Minn er mættur á staðinn og heitir Harrison. Þetta verður að mestu leyti tjaldferð,  en öðru hverju er gist á hótelum. Hópurinn verður eitthvað á bilinu 12-24. Ég hef engan hitt ennþá en treysti því að þar verði skemmtilegt fólk. 

Og já, ég bloggaði! Þessi bloggsíða hefur varla verið til nema að nafninu til síðustu ár og fyrst og fremst hugsuð sem skjalasafn fyrir pistlana mína. Hér skrifaði ég þó reglulega á meðan Asíureisunni stóð og aldrei að vita nema ég geri það sama núna. Þegar maður er svona mikið á ferðinni, að upplifa og sjá eitthvað nýtt á hverjum degi, þá er hugurinn að springa af hugleiðingum sem gott er að skrifa niður. Sérstaklega þegar maður er einn og getur ekki deilt þeim með neinum! Ég er með dagbók, en lyklaborðið er óneitanlega máttugra (og hraðvirkara). Ég var með sömu dagbók meðferðis í Asíu en fyllti hana aðeins til hálfs, og hef satt að segja flett mun oftar upp í Asíufærslum hér á blogginu en í dagbókinni.

Þessi skrif eru því fyrst og fremst greiði við sjálfa mig, þótt áhugasömum sé velkomið að lesa. Það verður þó að koma í ljós hversu oft ég hef færi, getu og nennu til að skrifa hér inn. Ferðin mun eflaust líða mjög fljótt líka, 7 vikur eru dropi í tímans haf og áður en ég veit af verð ég komin heim í marshretið (rshr er samhljóðaklasi dagsins í mínu boði - alveg ókeypis).

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Endilega skrifaðu sem mest, bæði fyrir okkur ferðaþyrstu vini þína sem heima sitjum í snjónum og svo fyrir þig til að lesa seinna. Það er svo merkilegt hvað minnið bregst manni hratt og mér finnst a.m.k. mjög gaman að rifja upp allskonar tilfinningar og vandræði sem ég hafði steingleymt en fest í orðum. :) Njóttu!!

Kv. Erna, þjáningarsystir í ferðasýki

Nafnlaus sagði...

Ég er svo innilega hamingjusöm fyrir þína hönd! Ef þú finnur fyrir einhverri skrýtinni nærveru er það kannski bara ég að vera með í anda ;).

Hlakka til að heyra meira og fá að upplifa þetta í gegnum skemmtilegu skrifin þín.

Kram frá slabbinu í DK,
Kristín

P.S. Ég trúi því varla að ég sé að kommenta á blogg árið 2014. Retró-stemmning í þessu!

Nafnlaus sagði...

Takk stelpur! Og takk fyrir að lesa maður! Sannarlega retro stemning :)