fimmtudagur, janúar 23, 2014

Frá Kenýa til Tansaníu - Serengeti og Ngorongoro

Alveg óvart tókst mér að gera fyrsta ferðadaginn innan Afríku svolítið dramatískan, þegar ég féll í yfirlið í miðri ösinni á landamærum Kenýu og Tansaníu. Sem betur fer jafnaði ég mig þó fljótt og naut næstu 4 daga, í Serengeti þjóðgarðinum og Ngorongoro gígnum, þar sem náttúra og dýralíf Afríku sýndu sínar bestu hliðar.

Gíraffar slást í Serengeti.

Ég býst við að það hafi verið loftslagsbreytingarnar, skyndilegur hitinn og rakinn,  óreglulegur svefn og kannski líka malaríulyfin. Eftir um 3 tíma keyrslu frá Nairobi vorum við á landamærunum þar sem tók við kaótísk biðröð í steikjandi hita, til að stimpla sig út úr Kenýa. Það lá vel á mér, þannig að ég hleypti nokkrum kerlingum sem báru sig illa fram fyrir mig og því var ég síðust af mínum hóp og flestir voru lagðir af stað yfir einskinsmannslandið að landamærum Tansaniu þegar mér fór allt í einu að líða illa. Sem ég stóð við afgreiðsluborðið og rétti fram vegabréfið leið allt í einu yfir mig. Það tók mig svolítinn tíma að ná áttum, ég skildi fyrst ekkert hvar ég var eða hvað var að gerast og þegar ég reisti mig upp kastaði ég upp yfir buxurnar mínar og gólfið. Þegar ég kom til almennilegrar meðvitundar var ég umkringd fólki, ókunnugum leðurklæddum blökkumönnum, sem réttu mér vatn og kók og struku mér um ennið með blautum klút. Þar var kominn hópur suður-afrískra mótorhjólamanna, á leið í öfuga átt yfir landamærin til Kenýa eftir ferðalag frá Höfðaborg. Með þeim í för var ung kona sem var læknir og hún kom hlaupandi, stakk mig í fingur og tók blóðþrýstingin, lét einhvern leita í töskunni minni eftir bólusetningarkortinu mínu og lét mig svo fá vatn blandað með einhverri  rehydration töflu. Á meðan ég var að drekka og jafna mig skoluðu þær á mér andlit og hendur og þeir sem stóðu í kringum mig létu mig vita að veskið mitt, bakpokinn og vegabréfið væri allt saman í öruggum höndum. Mér finnst frábært hvað allt þetta ókunnuga fólk hugsaði vel um sólbrenndan bakpokaferðalang sem hrundi í gólfið á landamærunum.


Ég var frekar máttlítil það sem eftir var dagsins en hef gætt mín á að drekka vel og hef verið við hestaheilsu síðan. Sólin hér er ekkert grín, og það var því léttir fyrir mig að í safaríinu undanfarna  4 daga var léttskýjað og rigning öðru hverju.

Vegalengdirnar hérna eru miklar. Við ókum 300 km gegnum sigdalinn til að komast í Serengeti þjóðgarðinn, sem er 14.763 ferkílómetrar. Allt Serengeti vistkerfið er hinsvegar yfir 26.000 km2, því umhverfis þjóðgarðinn liggja friðlendur sem eru n.k. „buffer-zones“ eða verndarsvæði fyrir dýralifið. Þar á meðal er Ngorongoro-gígurinn, þar sem við vorum í 1 nótt, eftir 2 nætur í Serengeti.

Á þessu stóra svæði eiga landflutningarnir miklu sér stað, „the great migration“, þegar milljónir dýra færa sig úr stað til að fylgja rigningartímanum. Þetta er eilíf hringrás sem hefur farið fram með svipuðum hætti í þúsundir ára, þótt leiðin sem hjarðirnar fara sé aldrei nákvæmlega sú sama. Núna eru rigningarnar í Serengeti og við vorum því á góðum tíma fyrir safari því allt iðaði af lífi og gresjan var fagurgræn.

Það kom mér ánægjulega á óvart hversu mikla kyrrð var að finna í Serengeti. Ég átti allt eins von á umferðarteppu safari-jeppa, og stundum gerðist það vissulega að allt að 10 jeppar flykktust á sama stað ef þar sást t.d. ljónahjörð að blettatígur. En oftar en ekki vorum við ein á ferð og við sólarlag fyrsta kvöldið höfðum við t.d. ekið í um 2 klukkustundir án þess að mæta öðrum bíl. Bara við, og sebrahestastóð í þúsundatali.

Ljónsungar að vera krútt í Serengeti.

Ég ætla ekki að telja upp allt sem við sáum, en hápunktarnir voru m.a. slagsmál milli tveggja karlgíraffa, fílahjörð með ungum sem umkringdi bílinn og að sjá fjóra sebrahesta vaða yfir á, skammt fyrir ofan flóðhestavöðu, og krókódíl reyna að hremma þá. Á leiðinni út úr Serengeti síðasta daginn vorum við síðan ótrúlega heppin, þegar við ókum fram á stóra ljónahjörð á ferðinni.  Við stoppuðum til að virða fyrir okkur tvö karlljón sem spókuðu sig uppi á klettum, en urðum þá vör við stóran hóp, 5-6 ljónynjur með a.m.k. 14 ljónsunga, sem komu gangandi yfir gresjuna. Þau röltu beint framhjá bílnum og upp á stóran stein fyrir framan okkur. Þar fylgdumst við með ljónsungunum leika sér í hálftíma, áður en við urðum að drífa okkur til að skrá okkur tímanlega út úr þjóðgarðinum.

Næstu nótt vorum við á brún Ngorongoro gígsins, á mjög fallegu tjaldsvæði þar sem fílar komu í heimsókn og drukku úr vatnstankinum. Ngorongoro er ekki þjóðgarður heldur friðlenda, og þar er markmiðið að vernda bæði dýralífið og mannlífið. Maasvel ai ættbálkurinn hefur búið í Ngorongoro í um 200 ár og vegna þess að Maasai fólkið er hirðingjar, sem stunda hvorki landbúnað né veiðar, þá mega þau búa í friðlendunni og stunda sína frunmstæðu lífshætti. Við ókum framhjá tugum Maasai þorpa, sem eru litlar þyrpingar húsa gerð úr greinum og kúaskít. Maasai fólkið er alls staðar á ferðinni með geitur sínar og naut og það er fallegt að sjá þau bera við landslagið því þau klæðast afar skærlitum kyrtlum. Ef vel árar eru þau með fasta búsetu í sama þorpinu í nokkur ár,  þótt smalastrákarnir séu stundum fjarverandi nokkrar vikur í senn með hjarðirnar. Þorpin eru oft reist í námunda við litlar tjarnir eða ár, þaðan sem þau nýta vatn til að elda. Mataræði Maasai fólksins samanstendur hefðinni samkvæmt fyrst og fremst af kjöti, mjólk og blóði, þ.e. öllu því sem skepnurnar þeirra bjóða, en í seinni tíð eru víst sum þeirra farin að kaupa maís til matargerðar.

Maasai-menn í Tansaníu

Við fengum að heimsækja Maasai þorp og það var um margt áhugavert. Það er merkilegt að þessir lífshættir séu enn stundaðir. Við sjálfstæði Sameinaða lýðveldisins Tansaníu voru yfir 100 ættbálkar settir undir eitt ríki. Flestir þeirra hafa að stórum hluta tekið upp nútímalegri lífshætti, en ekki allir og þar af er Maasai fólkið sennilega frumstæðast. Þó ekki frumstæðara en svo að þau vilja gjarnan græða peninga, allavega þau þeirra sem eru til í að taka á móti ferðamönnum og sýna þeim heimili sín. Svona túrismi er alltaf svolítið skrýtinn, þ.e. að borga fyrir að skoða fólk, en ég býst við að það sé gagnkvæmur hagur. Ég vildi gjarnan fá að komast aðeins í kynni við þeirra líf, og þau vilja gjarnan fá smá pening í aðra hönd. Í hverju þorpi býr ein fjölskylda, sem samanstendur af „höfðingja“, allt að 10 eiginkonum hans og börnum. Einn sonanna hafði fengið styrk frá Bandaríikjamanni til náms, í borginni Arusha, og hann talaði ágæta ensku. Mér til mikillar skelfingar sagði hann að allar stelpurnar í þorpinu væru umskornar við 12 ára aldur. Unskurður stúlkna er bannaður með lögum í Tansaníu, og mér hafði verð sagt að flestir ættbálkar hefðu látið af þessum ógeðslegu misþyrmingum á kynfærum kvenna, en ekki ef marka má það sem okkur var sagt í þorpinu.

Ferðafélagar mínir í Serengeti og Ngorongoro

Við gistum í Arusha, þriðju stærstu borg Tansaníu, nóttina fyrir og eftir safaríið. Arusha er í miðri Afríku, þaðan er jafnlangt til Höfðaborgar í suðri og til Kaíró í norðri. Seinna meir væri gaman að fara þá leiðina, til að tengja saman Afríku endilanga. En það verður að bíða betri tíma, í birtingu brunum við til Dar Es Salaam þaðan sem við tökum ferjuna til Zanzibar.

1 ummæli:

steinunnogmargret sagði...

Datt inn á bloggið þitt :) Vá hvað það er gott að fólkið hugsaði vel um þig og að enginn stal bakpokanum þínum!
Ekkert smá ævintýri. Farðu varlega og góða skemmtun!
Mkk,
Steinunn