Allt önnur Afríka
Austur-Afríka er allt önnur Afríka en suðurhlutinn, því hef
ég fengið að kynnast undanfarið. Strax í Sambíu byrjuðu hlutirnir að breytast
aðeins og Botsvana var síðan allt öðruvísi upplifun en það sem á undan var
komið.
„Aftur í siðmenninguna“ segja leiðsögumennirnir okkar hlæjandi,
en ég veit líka að þeirra vinna er talsvert auðveldari á þessum slóðum en í Austur-Afríku.
Þegar renni í huganum yfir fyrstu vikurnar í Kenýa, Tansaníu og Malaví, þá
einkenndust þær af löngum dögum, gríðarlegri keyrslu eftir erfiðum vegum, hita,
raka, svita, áberandi fátækt og frumstæðum aðstæðum. 300 km vegalengd þýddi allt
frá 6-10 klukkustunda ferðalag. Einn daginn var áætlaður aksturstími 5 tímar,
en þegar á reyndi vorum við 12 tíma á leiðinni. Vegirnir hafa farið jafnt og
þétt batnandi síðan og í Botsvana fór maður meira að segja að sjá málaðar
vegmerkingar á malbiki! Það er orðið langt síðan við keyrðum síðast fram hjá
vörubíl á hliðinni í vegkanti, en það var nokkuð algeng sjón í Tansaniu og
Malaví. Hér í suðrinu eru líka bensínstöðvar með þjónustu í ætt við það sem
maður þekkir heima og skyndibitastaðir. Samfélagið er skipulagðara og
spillingin minni.
Götulíf í Malaví.
Þrátt fyrir að þægindin séu óneitanlega meiri þá finnst mér eftirsjá að Austur-Afríku. Einhvern veginn var það meiri
„alvöru Afríka“, meira framandi, ögrandi og spennandi. Kannski er það líka bara
það að ég er orðin nokkuð Afríku-vön núna og hlutirnir eru hættir að koma á
óvart. En það er fyrst og fremst mannlífið sem ég sakna. Þessir löngu og
þreytandi keyrsludagar voru aldrei leiðinlegir, vegna þess að það var endalaust
eitthvað að sjá út um gluggann. Alls staðar var fólk að gera eitthvað
áhugavert: Bera huti á höfðinu, draga vagna með þungu hlassi, seljandi föt í
hrúgum í vegkantinum, hlaupandi meðfram bílnum til að reyna að selja manni
mangó, egg eða grillaðan maís. Ég hékk hálf út um gluggann mestallan tímann
niður eftir endilöngu Malaví, því það var svo gaman að alls staðar var fólk sem
veifaði brosandi til manns. Iðulega komu krakkar hlaupandi, æpandi og veifandi
og trylltust úr gleði þegar maður veifaði til þeirra á móti.
Jassa frá Króatíu útdeildi kexkökum til krakka sem hlupu að bílnum okkar í Sambíu.
Í Austur-Afríku eru mannabyggðir alveg við veginn og litlir
þéttbýliskjarnar sem minna helst á villta vestrið. Oft eru það ekki meira en
3-4 rykugar húsaraðir sitt hvoru megin við veginn, fremst litlir húsakofar með
einhvers konar þjónustu og svo sá maður gegnum kræklóttar, þröngar leirgötur
glitta í hrörleg heimili fólks þar fyrir aftan. Oft var spaugilegt að lesa hástemmd heitin á verslunum og börum, sem gjarnan voru ekki meira en 10 fm að stærð, úr
ryðguðu bárujárni eða leir, en á vegginn var málað „New York Bar“, „Restaurant
Miami“ eða „Paradise Guesthouse“. Í Tansaníu sá ég nokkra pínulitla sölubása
titlaða „Barack Obama Shop“ og „Hillary Clinton Shop“.
Austur-Afríka var sem sagt iðandi af mögnuðu mannlífi og
landslagið var sömuleiðis fjölbreytt og fallegt. Til samanburðar er frekar
leiðinlegt að keyra í gegnum Sambíu og Botsvana. Bæði löndin eru marflöt og þar
má ekki byggja meðfram þjóðvegunum svo út um gluggann er ekkert að sjá nema tré
eftir tré, runna eftir runna. Og stöku sinnum fíla, asna eða kýr. Það kemur þó
vonandi til með að breytast núna, því í dag fór ég yfir landamærin til Namibíu
og framundan er fjölbreytt eyðimerkurlandslag og fjallendi sem sagt er afar
fallegt.
Saga af afrískri velgengni: Botsvana
Botsvana er eitt „best heppnaða“ land Afríku ef svo má segja. Það fékk sjálfstæði frá Bretlandi 1966 og ári síðar fundust þar þrjár auðugustu demantanámur heims. Þar er ekki sýslað með blóðdemanta, námurnar eru í eigu ríkisins og arðurinn hefur verið notaður til að fjárfesta í innviðum landsins, mennta- og heilbrigðiskerfi. Botsvana hefur líka markað sér opinbera stefnu í ferðaþjónustu, og leggur áherslu á að laða til sín efnaða ferðamenn sem skilja meira eftir sig. Fjöldatakmarkanir og hátt aðgönguverð eru á stærstu ferðamannastaði, sem eru þjóðgarðarnir. Sömuleiðis eru háir skattar á áfengi svo bjórinn er í dýrari kantinum. (Allt að 500 kall flaskan, gisp!) Botsvana er því ekki paradís budget-ferðalangsins, en heimamenn hafa það talsvert betra en víða í Afríku.
Bússkonur af San-ættbálkinum safna rótum í Botsvana.
Í Botsvana er þó auðvitað líka fátækt að finna og þar eru líka Búskmennirnir svo kölluðu, sem nú þykir pólitískt réttara að kalla San-ættbálkinn. Flestir hafa heyrt um Búskmennina, þetta er fólkið sem talar skrýtna tungumálið með öllum góm- og koksmellunum. Mjög sérkennilegt á að hlýða. San-fólkið hefur lifað af landinu í eyðimörk suðurhluta Afríku í 30.000 ár, en í dag er menning þeirra óðum að hverfa. Flest þeirra búa í þéttbýlum Botsvana þar sem alkóhólismi og atvinnuleysi plagar þau. Í botnsvanska dagblaðinu Mmegi las ég grein sem fjallaði um það að almenningur í Botsvana komi nú fram við San-fólkið eins og hvítir nýlenduherrar gerðu áður við heimamenn almennt, eins og þeir væru af lægra greindarstigi. Sumir úr hópi San-fólksins reyna að viðhalda þeim hefðum og lífstíl sem forfeður þeirra hafa stundað í árþúsund, og við fengum aðeins að kynnast því síðustu nóttina okkar í Botsvana, í Ghanzi.
Þangað kom hópur San-fólks eftir kvöldmat og dansaði fyrir okkur og söng við varðeldinn. Hver dans sagði sögu, yfirleitt um veiðar eða uppskeru, og sáu karlarnir um dansinn með mjög leikrænum tilburðum, en konurnar sungu sérkennilegan gómsmellusöng og klöppuðu lófunum í takt.
Kveðjustund í Botsvana – taka II
Síðast skrifaði ég frá Viktoríufossum um tregann yfir því að
skiljast við hópinn minn. Ég tók fljótt gleði mína aftur, því það kom í ljós að
leiðir nýja trukksins míns (Otis) og þess gamla ( Harrison) lágu saman lengur
en við héldum. Godfree leiðsögumaðurinn minn hótaði nýja krúinu mínu að hann
myndi stela mér og það gerðist eftir fyrsta daginn, því um leið og við vorum
komin til Botsvana fékk ég að fljóta aftur með Harrison á milli tjaldbúða.
Báðir hópar fóru inn í Okavango Delta í 2 nætur, í sitthvoru lagi þó, og ég
fékk að fara með gamla hópnum mínum. Við dvöldum á frábærum gististað, í litlum
trjáhýsum sem féllu fullkomlega að umhverfinu. Okavango-áin kvíslast þarna um
allt og á daginn sigldum við með heimamönnum á makoro-trébátum á milli eyja,
þar sem við gengum um í leit að dýralífi og sáum m.a. gíraffa og fíla. Svo
syntum við í ánni, flatmöguðum í afslöppun og í ljósaskiptunum var æðislegt að
skella sér í kalda útisturtu á meðan tunglið skreið upp á fjólubláan himinn. Um kvöldið var kveikt á kyndlum milli trjáhýsanna
og varðeldi við árbakkann þar sem við hlustuðum á flóðhestana og virtum fyrir
okkur eldflugurnar og stjörnurnar. Algjör dásemd.
Fullkomin slökun og kyrrð í makoro-bátnum í Okavanga.
Áður en yfir lauk fékk ég því tæpa 4 frábæra viðótardaga í
Botsvana með gamla hópnum mínum, sem gladdi mig mjög. Í fyrradag þurfti ég samt
að kveðja þau endanlega og get ekki neitað því að nokkur tár féllu hjá mér við
það tækifæri. Ég er dramatísk á kveðjustundum, því ég höndla svo illa
tilhugsunina um að sjá gott fólk aldrei aftur. Ég var samt ekki sú eina sem var
dramatísk, því þarna þurftu líka nýir elskendur að skiljast. Önnur brasilíska
systirin, Vanessa, og svissneski strákurinn, Sascha, náðu svona ljómandi vel
saman og voru búin að deila tjaldi frá og með Sambíu. Þau kvöddust með djúpum
kossum en óvíst er hvort nokkuð áframhald verði á því sambandi.
Óvíst er hvort ástin milli Sascha og Vanessa eigi sér framhaldslíf.
Hjá mér eru það sérstaklega hjúkkurnar tvær frá Ástralíu og
Kanada sem ég sakna. Þær voru mínar helstu vinkonur síðasta mánuðinn, enda erum
við jafngamlar og náðum mjög vel saman. Þær myndu smellpassa inn í
vinkvennahópinn minn heima. Tara kemur samt til Íslands í vor, á leiðinni heim
til Kanada, svo ég fæ þá að hitta hana aftur, og vonandi Katie líka við
tækifæri.
Katie frá Ástralíu, Tara frá Kanada og nokkrir gíraffar í bakgrunninum.
Ég sakna líka Godfree og Thabi, gædanna okkar. Nýju
leiðsögumennirnir eru líka frá Simbabve, þau heita Gertrude og Martin og eru
mjög almennileg, en eftir mánuð á ferðalagi saman var mér bara farið að þykja svo
fjári vænt um Godfree og Thabi. Gertrude er mjög skipulögð og fagmannleg, að
því leyti í raun algjör andstæða við Godfree, en ég var farin að hafa gaman af
því hvað hann var kaótískur og óskiljanlegur. Algjör bangsi. Og ég sakna jákvæða
viðmótsins hjá Thabi, lúmska húmorsins og smitandi hlátursins sem kom manni
alltaf í gott skap. Nomad fær toppeinkunn hjá mér fyrir frábært starfsfólk. Flestir
leiðsögumenn Nomad koma frá Simbabve, sem er engin tilviljun. Atvinnuástandið
þar er hörmulegt, svo vel menntað og hörkuduglegt fólk vantar vinnu. Því miður
má segja að þessir leiðsögumenn sem ég hef kynnst séu of hæf fyrir störfin sem
þau sinna. Þau sjá fjölskyldur sínar sjaldan, en leggja áherslu á að þéna
pening til að geta greitt fyrir menntun barnanna sinna í heimavistarskólum.
Crew - Harrison veifar mér bless í síðasta sinn. Búhú.
Nýju ferðafélagar mínir eru annars alveg ágætir. Auk brasilísku
systranna, sem ég þekki fyrir, eru það pör frá Ástraliu og Írlandi, Frakklandi, Sviss og Póllandi
auk hans Frank, sem er læknir frá Berlín. Alveg brilliant náungi, afar
samkynhneigður. Ég er þó enn að kynnast
hópnum og á morgun bætast 6 manns við. Þessar síðustu vikur, í gegnum Namibíu
og Suður-Afríku, verða því farnar í fjölmennari hóp og þétt setnari trukk en
fyrri hluti ferðarinnar. Meira un það síðar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli