sunnudagur, febrúar 09, 2014

Kaflaskil í Simbabve

Simbabve er hér með komið á listann yfir Afríkulönd sem mig langar að heimsækja aftur. Ég hef því miður ekki tækifæri til að sjá mikið af landinu í þetta sinn, hef dvalið núna nokkra daga við Viktoríufossa, í samnefndum bæ rétt hjá þessum mestu fossum heims, og líkar vel en héðan er svo förinni heitið beint til Botsvana í fyrramálið.

Velkomin til Simbabve! Og mér hefur sannarlega fundist ég velkomin.

Simbabve er auðvitað einræðisríki, pólitíkin er eldfim hér og efnahagsástandið afar erfitt. Þetta þýðir líka að hingað leggja færri ferðamenn leið sína en til nágrannalandanna og að þeir sem hingað koma eru afar velkomnir og mæta mikilli velvild. Viktoríufossar eru reyndar einhver mesti ferðamannastaður Afríku, en hér eru þó ekki margir ferðamenn sem stendur, ég hef lagt leið mína á tvö fimm stjörnu hótel hér, til að borða og nota þráðlaust net, og þau eru bæði hálftóm. Fyrir vikið er tekið á móti manni eins og kóngafólki.

Hér má gera sér ýmislegt til dundurs. Í dag fór ég í river-rafting í Zambezi ánni, sem markar landamærin við Sambíu og þar sem Viktoríufossar falla. Það var í einu orði sagt geðveikt og tvímælalaust einn af hápunktum ferðarinnar til þessa, strax frá upphafi þegar við þurftum að klöngrast ofan í gljúfrin í gegnum hitabeltisskóg. Hamraveggirnir eru magnaðir að sjá neðan frá og flúðasiglingarnar mikið fjör. Ég hef áður raftað í Austari-Jökulsá í Skagafirði, sem var frábært. Báðar árnar eru með 5 stiga flúðir, sem er hæsta stig skalans, en Zambesi var enn meira fjör, bátnum okkar hvolfdi þrisvar sinnum en vatnið var hlýtt og bara gaman að láta sig fljóta niður eftir ánni meðan ég beið eftir að vera sótt af kajak.

Holdvot við hina ógnarstóru Viktoríufossa. Þetta er aðeins brotabrot af fossunum sem þarna sést.

Gljúfurbarmarnir í kringum fossana sjálfa eru þjóðgarður, þar sem maður verður holdvotur inn að beini af því að ganga tæpa 2 km meðfram fossbrúninni. Úðinn frá fossunum sést líka langar leiðir að og drunurnar heyrast sömuleiðis, sérstaklega núna þegar rigningartíminn er. (Upprunalegt nafn þeirra er Mosi-oa-Tunya, eða "Drynjandi reykur".) Sannarlega stórkostlegt náttúruundur.

Meira um Simbabve

 Við tölum um hrun á Íslandi, en eins og frægt er orðið hrundi gjaldmiðillinn hér í Simbabve svo gjörsamlega að eftir að farið var að prenta verðlausa 50 milljarða seðla gafst Mugabe á endanum upp og samþykkti að taka einhliða upp Bandaríkjadal. Við það varð stöðugleikinn meiri, en verðlag jafnframt hærra og heimamenn bera sig illa undan því að eiga ekki sjálfstæðan gjaldmiðil.

Mér hefur þótt áhugavert síðustu vikurnar að kynnast simbabvísku leiðsögumönnunum mínum betur því það er skemmtilegt að finna hvað við getum spjallað um margt, haft svipaðan húmor og átt sameiginlega snertifleti, þótt þeir komi frá þessu landi sem hefur virst manni svo framandi, af þeirri einsleitu mynd sem við fáum af því gegnum vestræna fjölmiðla.

70 simbavískir milljarðar á sundlaugarbarminum bling bling

Líf Thabi, bílstjórans okkar,fléttast með frekar sorglegum hætti saman við átakasögu Simbabve síðustu áratugi. Hann er 39 ára, fæddur einstæðri móður í byrjun 8. áratugarins um það leyti sem sjálfsstæðisstríðið stóð sem hæst og landið hét enn Ródesía. Þegar hann var smábarn var mamma hans kölluð í herinn, því sett var á herskylda fyrir alla eldri en 18 ára. Hún barðist fyrir Mugabe og Thabi ólst upp hjá ömmu sinni. Eftir stríðið kom mamma hans ekki aftur og þau héldu að hún hefði dáið, en mörgum árum síðar, þegar Thabi var orðinn 15 ára, sneri hún allt í einu heim og hann kynntist mömmu sinni í fyrsta sinn. Í millitíðinni hafði hún eignast mann og stofnað nýja fjölskyldu.

Með mínum ástkæru Godfree og Thabi. Að ógleymdum Harrison, trukknum okkar.

Amma Thabi, sem var honum sem móðir, er enn á lífi og verður níræð í sumar. Mugabe verður níræður núna í febrúar. Það er talsvert um langlífi hér, þótt almennar lífslíkur séu ekki nema 40 ár. Thabi verður sjálfur fertugur á næsta ári, en hann er ekkill og einstæður faðir. Konan hans dó bráðung úr lungnabólgu árið 2006. Það var um sama leyti og allt hrundi endanlega í Simbabve, bókstaflega, þar á meðal heilbrigðiskerfið. 3 af 4 stærstu spitölum landsins stóðu tómir, þar voru hvorki læknar né lyf og engin starfsemi. Ung kona á ekki að þurfa að deyja úr lungnabólgu og við eðlilega kringumstæður hefði verið hægt að bjarga barnsmóður Thabi. Hann var fjarverandi vegna vinnu þegar hún dó, og hefur síðan verið einn með dætur þeirra tvær sem eru 10 og 14 ára. „Þetta var slæmur tími,“ sagði Thabi einfaldlega þegar hann lýsti þessu.

Þrátt fyrir allt er Thabi ótrúlega glaðlyndur, ljúfur og brosmildur. Sem leiðsögumaður er hann alltaf á ferðinni um Afríku þvera og endilanga, en Nomad greiðir þokkaleg laun á afrískan standard svo hann hefur efni á að senda eldri dótturina í heimavistarskóla og ráða barnfóstru til að annast þá yngri þegar hann er í burtu. Hann býr hér í Viktoríufossum og við samglöddumst honum að fá smá frí við komuna til Simbabve, til að vera með dóttur sinni.

Seinni hluti Afríkureisu hefst

En hér í Simbabve verða sem sagt kaflaskil. Stærstur hluti hópsins á ekki nema viku eftir, þau halda áfram í trukknum Harrison, með Thabi og Godfree, í gegnum Botswana til Jóhannesarborgar. Hjá mér er ferðin hinsvegar u.þ.b. hálfnuð. Ég fer nú inn í nýjan trukk (Otis), með nýjum hóp og nýjum leiðsögumönnum, í gegnum Botswana og Namibíu, meðfram Vesturströnd Suður-Afríku til Höfðaborgar.

Það er skrýtið, fyrir mánuði þekkti ég ekkert af þessu fólki sem ég er nú að kveðja en eftir að hafa verið með þeim allan sólarhringinn í nokkrar vikur, borðað hverja máltíð saman og deilt nýrri lífsreynslu og einkahúmor, þá finnst mér erfitt að skiljast við þau. Breytingar eru erfiðar!

Dæmigerður hádegisverður í vegkanti hjá Harrison-krúinu

Þannig að já, ég er á smá bömmer í augnablikinu. Mig langar bara að vera áfram með „fólkinu mínu“ og nenni ekki að fara í gegnum þennan prósess aftur, að kynnast nýjum hóp og þurfa svo að kveðja þau líka eftir mánuð og sjá þau aldrei aftur. Ég kom auðvitað hingað fyrst og fremst til að kynnast Afríku, en í bónus fæ ég dálítinn tilfinningarússíbana, nýja vini og heimboð til Englands, Ástralíu, Kanada, Króatíu, Tyrklands, Brasilíu og Sviss. Lífið er ljúfsárt.

Engin ummæli: