miðvikudagur, febrúar 05, 2014

Flóðhestar, fílar og fátækt

Tjaldsvæðið á bökkum Luangwa árinnar í Sambíu er sennilega uppáhalds næturstaðurinn minn í Afríku til þessa. Við gistum þar tvær nætur og vorum ein á svæðinu, í mikilli kyrrð og ró fyrir utan stöðug óhljóð úr flóðhestastóðinu í ánni, og öðru hverju skvamp í krókódílum að veiða sér til matar. Við tjaldbúarnir fengum fyrirmæli um að skoða jörðina vel áður en við völdum tjaldsstað og gæta þess að vera hæfilega fjarri flóðhestaslóðum. Þeir flatmaga í ánni allan daginn, til að kæla sig, en eftir að sólin sest fara þeir á kreik til að bíta gras. 


Tjaldbúðirnar okkar á bökkum Luangwa árinnar í Sambíu. Beint fyrir neðan voru flóðhestar og krókódílar.

Þótt flóðhestar séu klunnalegir geta þeir hlaupið á 40 km hraða á landi og skolturinn á þeim er rosalegur. Jonas, leiðsögumaðurinn okkar í Serengeti, sagðist einu sinni hafa séð flóðhest klippa fullvaxið ljón í tvennt. Það var því svolítið furðulegt að sitja við grillið eftir kvöldmat og sjá flóðhest klöngrast upp árbakkann og rölta hjá í 50 metra fjarlægð. Alla nóttina heyrði maður í þeim, og líka stöku hýenu, svo fyrirmælin voru að fara ekki á klósettið að óþörfu og aldrei án vasaljóss og lýsa vandlega í kringum sig.

Meðfram ánni er Suður-Luangwa þjóðgarðurinn, þar sem er eitt þéttasta búsvæði hlébarða í allri Afríku. Við fórum í sólsetur-safari í leit að hlébörðum, en sáum engan. Mér var þó nokk sama því svæðið er afskaplega fallegt, skógi vaxið, og krökkt af fílum, antílópum og sebrahestum. Þjóðgarðurinn er ekki girtur af og fílarnir vaða út um allt þarna, íbúum svæðisins til ama. 

Flest þorpin þarna samanstanda af litlum þyrpingum stráhúsa, og ef fílarnir finna lykt af ávöxtum eru þeir vísir til að rífa húsin niður. Þeir eru almennt nokkuð friðsamlegir, en karlfílar sem eru einir á ferð geta þó verið árásargjarnir og við fengum að reyna það þegar við keyrðum burt frá Luangwa í morgun. Við sáum stærðarinnar fíl, þann stærsta sem ég hef séð, sem lét ófriðlega upp við tré og slengdi höfðinu til og frá. Allt í einu tók hann á rás og stefndi beint að trukknum okkar. Við æptum á Thabi, bílstjórann okkar, að gefa í en hann heyrði fyrst ekki hvað við vorum að segja svo hann stoppaði. Þegar hann sá fílinn í baksýnisspeglinum og heyrði hvað við vorum að öskra beið hann þó ekki boðanna og gaf í og við hristum hann af okkur – en hann komst ansi nærri á miklum hraða og þessar löngu skögultennur hefðu hæglega getað valdið skaða.

Fíll við þjóðveginn.

Daginn áður höfðum við líka orðið vitni þess að heimamenn eru raunverulega hræddir við filana, því þegar við vorum á leið heim í tjaldbúðirnar úr einu þorpanna, á opnum Landrover jeppa, þá ókum við fram á hóp kvenna sem voru að flytja eldivið á höfðinu heim til sín. Hinum megin við veginn var fíll, og konurnar óskuðu eftir því að við keyrðum hægt samsíða þeim þar til þær kæmust í skjól frá fílnum. Þær voru augljóslega hræddar við hann.

Annars er þetta nokkuð dæmigerð sjón hér um slóðir: Konur að vinna þrælerfiða líkamlega vinnu. Manni virðist stundum sem konurnar geri nokkurn veginn allt hérna, þær þvo þvottana og elda matinn, ala upp börnin og þrífa, vinna á ökrunum og víða í þorpunum er það líka þannig að konurnar safna efnivið og reisa húsin. Alls staðar eru konur að bera þunga hluti á höfðinu, með börn bundin á bakið. Á sama tíma er talsvert algengt að sjá stráka- og karlahópa sitja í skugganum undir tré að því er virðist aðgerðarlausir. Jafnvel að drekka spíra. Líklega sjást hvergi skýrari dæmi um vanþakklátt framlag kvenna til að halda uppi hagkerfum heimsins launalaust.


Dæmigerð sjón meðfram vegkantinum í Austur-Afríku. Konur og stelpur að bera þungar byrgðar.

Áður en ég lagði af stað í þessa Afríkureisu íhugaði ég hvort ég ætti að fara í skoðunarferð um fátækrahverfi eins og boðið er upp á í sumum borgunum. Manni finnst það alltaf orka svolítið tvímælis siðferðislega, að borga fyrir að fara og virða fyrir sér fátækt fólks, en á sama tíma er hollt og óneitanlega forvitnilegt að sjá það. En hvað um það, ég get ekki ímyndað mér að fátækrahverfin í Höfðaborg og annars staðar séu fátæklegri en það sem blasir við manni meðfram vegunum í Kenýa, Tansaníu, Malaví og Sambíu. Fátæktin er svo rosaleg hérna. Við höfum heimsótt nokkur þorp, bæði skipulega eins og Maasai-fólkið, og óskipulega þegar maður röltir sjálfur um, og það er sláandi hversu allslaust fólk er hérna. Það á bókstaflega ekki neitt, annað en fötin sem það stendur í og nokkur ílát til eldamennsku og þvotta.

Í Suðaustur-Asíu sá maður vissulega fátækt, en víðast hvar átti fólk þó einhverjar eignir. Farsíma, sjónvarp, jafnvel tölvu, mótorhjól og einhver húsgögn. Húsin sem  ég hef farið inn í hérna eru algjörlega tóm, þar er ekkert nema fletið þar sem fólk sefur. Brasilísku systurnar segja það sama, í favela, fátækrahverfum Rio de Janeiro þar sem þær búa, þar eru gervihnattadiskar og raftæki þótt fólk eigi varla í sig og á. Hér er ekkert.

Ung stúlka með barn í þorpi í Sambíu

Þetta getur líka gert ferðamönnum erfiðara fyrir, því ef ég ber það t.d. saman við Asíu þá var auðvelt að ferðast sjálfstætt þar því það var alltaf hægt að borga einhverjum sem átti mótorhjól eða bíl, fyrir að ferja mann á milli staða. Á þeim svæðum sem ég hef ferðast um heyrir til algjörra undantekninga að fólk eigi farartæki, nema í mestalagi gamalt reiðhjól. Maður þarf að vera sjálfur með bíl til að komast á milli staða. 

Það gladdi mig þó að sjá hve mikið er um reiðhjól í bæði Malaví og Sambíu, þótt flest séu þau algjör skrapatól. Ég hef gert tvær tilraunir til að leigja hjól. Önnur þeirra, í Luangwa í Sambíu, var árangurslaus. Í fyrsta lagi vegna þess að tjaldsvæðið var talsvert fyrir utan aðalþorpið og ég gat ekki fengið neinn til að skutla mér þangað. Í öðru lagi vegna þess að enginn hafði heyrt um þá hugmynd áður að leigja hjól.

Í Malaví tókst mér þó að fara í smá hjólatúr. Ég sá stelpu koma hjólandi fram hjá tjaldsvæðinu okkar og hljóp á eftir henni og náði henni þar sem hún steig af hjólinu hjá fjölskyldu sinni sem var að matreiða við opinn eld. Stelpan talaði enga ensku, bara pabbi hennar, og þau vildu fyrst alls ekki láta mig fá hjólið („No good! No good!“) en þegar ég reiddi fram 1000 kwacha, sem er gjaldmiðill Malaví, fengust þau til þess. Í mínum huga er engin betri leið til að kanna nýjar slóðir en á hjóli, og ég naut þess virkilega að rúnta aðeins um. Hinsvegar var hjólið bæði bremsulaust og ljóslaust, og hnakkurinn hékk út á hlið, svo ég gætti þess að snúa aftur og skila því aftur í ljósaskiptunum.

Ég gæti skrifað endalaust en læt þetta duga í bili. Næstu tveir dagar eru ferðadagar, til að komast yfir landamærin til Simbabve. Það þýðir mikil keyrsla og langir dagar, í fyrramálið leggjum við í hann kl. 5:30, og ekki í fyrsta sinn. Ég er orðin algjör A-manneskja í þessari ferð því oftast erum við lögð af stað við sólarupprás!

Engin ummæli: